Mynd: Icelandair

Icelandair á allt sitt undir því að fá fjármuni frá íslenskum almenningi

Icelandair hefur fengið há ríkisbankalán, milljarða króna í hlutabætur, enn fleiri milljarða í uppsagnarstyrki, gert samgöngusamninga við stjórnvöld og fengið milljarða lán frá viðskiptavinum vegna ferða sem hafa ekki verið flognar. Nú stendur til að lána félaginu 16,5 milljarða króna með ríkisábyrgð til viðbótar við 20 milljarða króna í formi nýs hlutafjár sem gefa á út, og selja að mestu til lífeyrissjóða í eigu almennings.

Íslensk stjórnvöld samþykkti í vikunni að ábyrgjast 90 prósent af lánalínu til Icelandair Group upp á allt að 120 milljónir dala, sem er um 16,5 milljarðar króna á núverandi gengi. Þeir sem munu veita umrædda lánalínu eru helstu viðskiptabankar Icelandair, Landsbankinn og Íslandsbanki. Hvor um sig mun lána helming upphæðarinnar.

Þeir eru báðir í eigu íslenska ríkisins og því væri hvort eð er áhætta af láninu þótt ríkisábyrgðarinnar nyti ekki við. Ef Icelandair gæti ekki borgað ríkisbönkunum til baka þá myndi það rýra virði eigna ríkissjóðs. Því er bein ríkisábyrgð á starfsemi beggja bankanna í gegnum eign á hlutafé. Þar með er almenningur á Íslandi í raun að samþykkja að lána gríðarlega fjármuni til flugfélagsins, enda þarf ráðstöfunin að vera samþykkt á Alþingi áður en af henni getur orðið.

Um er að ræða lánalínu sem Icelandair getur dregið á næstu tvö árin en þarf að greiða upp í síðasta lagi eftir fimm ár. Félagið getur borgað upp lánalínuna á meðan að á ádráttartímabilinu stendur, kjósi það svo. Skilmálar lánalínunar gera ráð fyrir að eiginfjárhlutfall Icelandair þurfi að vera yfir tvö prósent. 

Með þessari aðkomu er ríkið að rétta Icelandair umfangsmikla hjálparhönd til að hjálpa félaginu í gegnum þann skafl sem það stendur frammi fyrir. Ríkið mun hins vegar ekki eiga kost á því að fá beina hlutdeild í þeim mikla fjárhagslega ábata sem fjárfesting í Icelandair gæti leitt af sér, takist félaginu að koma sér aftur á flug á næstu árum, með því að koma að málum með þessum hætti.

Þeir 16,5 milljarðar króna sem nú stendur til að lána Icelandair eru ekki einu fjármunirnir sem félagið hefur fengið að láni hjá Landsbankanum og Íslandsbanka. Og sannarlega ekki einu fjármunirnir sem ratað hafa til félagsins úr sameiginlegum sjóðum, í ýmsum formi, á undanförnum mánuðum og árum. 

Ríkisbankalán

Íslandsbanki hefur lengi verið helsti viðskiptabanki Icelandair. Ekki er hægt að lesa það út úr reikningum bankans hversu mikið hann hefur lánað til flugfélagsins en í síðasta árshlutauppgjöri bankans kom fram að um 80 prósent ferðaþjónustufyrirtækja sem eru í viðskiptum við bankann hafi fengið greiðsluhlé vegna yfirstandandi ástands. Um tíu prósent af útlánum bankans eru til fyrirtækja í þeim geira, þar sem Icelandair er stærsta fyrirtækið. 

Auglýsing

Í mars í fyrra lánaði Landsbankinn Icelandair 80 milljónir dala, þá um tíu milljarða króna en nú mun hærri fjárhæð, gegn veði í tíu Boeing 757 flugvélum félagsins, sem eru gamlar og líkast til verðlausar miðað við þá stöðu sem er uppi í heiminum í dag, samkvæmt viðmælendum Kjarnans. 

Lánið var veitt í kjölfar þess að léleg rekstr­ar­nið­ur­staða Icelandair á árinu 2018 gerði það að verkum að skil­málar skulda­bréfa sem félagið hafði gefið út voru brotn­ir. Láns­fjár­hæðin var nýtt sem hluta­greiðsla inn á útgefin skulda­bréf félags­ins. Því var verið að flytja hluta af fjár­mögnun Icelandair frá skulda­bréfa­eig­endum og yfir á banka í eigu íslenska rík­is­ins vegna þess að ekki tókst að semja við þá. 

Á miðvikudag birti Icelandair kynningargögn vegna fyrirhugaðs hlutafjárútboðs, sem mun fara fram í september. Þar kom fram að samkomulag við lánardrottna Icelandair, sem eru fjórir talsins, skili félaginu 103 milljónum dala, um 14 milljörðum króna, í bættri lausafjárstöðu og lægri fjárhagslegum skuldbindingum. Þessi árangur næst með því að öllum greiðslum af lánum er frestað í 24 mánuði, og bætir það lausafjárstöðu Icelandair um 51 milljón dali, eða tæpa sjö milljarða króna. Þá er búið að tryggja félaginu lánalínu frá lánveitendum upp á næstum sömu fjárhæð. 

Auk þess hefur náðst samkomulag um að breyta skilmálum í lánasamningum sem gildir fram á árið 2022 svo að Icelandair sé ekki brotlegt við þá, líkt og félagið er í dag. 

Í kynningargögnum er ekki sundurliðað hversu mikið hver lánveitandi vigtar í þessum fjárhagslega ábata, en ljóst er að ríkisbankarnir tveir eiga þar hlut að máli.

Hlutabótaleiðin

Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um hlutabótaleiðina svokölluðu, sem fól í sér að ríkið greiddi allt 75 prósent launa þeirra sem lækka tímabundið í starfshlutfalli upp að ákveðnu þaki, kom fram að langstærsti notandi hennar var Icelandair. Í mars og apríl, þegar notkun hlutabótaleiðarinnar var sem mest, fengu launamenn hjá dótturfélögum samstæðunnar alls 1.116 milljónir króna í greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna minnkaðs starfshlutfalls. 

Þar af voru 2.493 starfs­menn Icelandair í skertu starfs­hlut­falli og 502 starfs­menn Flugleiðahótela hf., auk starfs­manna Air Iceland Connect, Iceland Travel og fleiri dótt­ur­fé­laga. Starfs­menn Flugleiðahótela fengu alls 248 millj­ónir króna greiddar frá Vinnu­mála­stofnun vegna minnk­aðs starfs­hlut­falls í mars og apr­íl, en inn í heild­ar­summ­una sem fór til starfs­manna Icelandair reikn­ast ein­ungis 87 millj­ónir af þeirri upp­hæð, sökum þess að í apríl seldi Icelandair 75 pró­sent hlut sinn í hót­el­keðj­unni.

Það fyrirtæki sem komst næst Icelandair í nýtingu á leiðinni var Bláa Lónið, með undir 17 prósent af þeirri upphæð sem fór í launagreiðslur til starfsmanna Icelandair á tímabilinu. 

Icelandair Group er það einstaka fyrirtæki sem hefur getað nýtt efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar mest allra.
Mynd: Bára Huld Beck

Í síðasta árshlutareikningi Icelandair kemur fram að félagið hafi líka nýtt hlutabótaleiðina fyrir yfirgnæfandi hluta starfsmanna í maímánuði og því ljóst að heildarupphæðin sem fór úr opinberum sjóðum í að greiða hlutabætur til starfsmanna Icelandair var mun hærri en sá rúmi milljarður króna sem greint var frá í skýrslu Ríkisendurskoðunar. 

Hlutabótaleiðin er ekki lengur í bókum Icelandair enda hætti félagið að nýta úrræðið í lok maí. 

Uppsagnarstyrkirnir

Icelandair hefur líka verið stærsti einstaki notandi þeirra efnahagslegu úrræða sem ríkisstjórnin hefur kynnt til leiks vegna kórónuveirufaraldursins. Í síðasta árshlutauppgjöri Icelandair kom fram að félagið búist við því að sækja að minnsta kosti 24 milljónir dala, um 3,3 milljarða króna, í styrki til stjórnvalda vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti. Gert var ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna úrræðisins verði allt að 27 milljarðar króna. Miðað við þá tölu myndi rúmlega tólf prósent af uppsagnarstyrkjunum fara til Icelandair. Nýbirtar tölur benda þó til þess að ríkissjóður muni greiða mun lægri upphæð út í uppsagnarstyrki, en hingað til hafa slíkar greiðslur numið 3,7 milljörðum króna, eða litlu eitt meiru en að Icelandair reiknar með að fá út úr leiðinni.

Stuðn­ing­ur­inn nemur að hámarki 85 pró­sent launa starfs­manns á upp­sagn­ar­fresti, og ríkið greiðir ekki nema að hámarki 633 þús­und krónur á mán­uði af launum hvers og eins starfs­manns og styrkir fyr­ir­tæki ein­ungis til að greiða þrjá mán­uði af upp­sagn­ar­fresti, jafn­vel þó starfs­menn hafi lengri upp­sagn­ar­frest.

Samgöngusamningar

Ríkið hefur líka gert þjónustusamninga við Icelandair á meðan að faraldurinn hefur geisað. Í þeim fellst að flugfélagið hefur haldið ákveðnum samgönguleiðum til og frá landinu opnu á meðan að ferðatakmarkanir eru í gildi vegna kórónuveirufaraldursins. 

Ríkið greiddi þannig Icelandair fyrir að fljúga leiðir ákveðnar leiðir til Evr­ópu og Banda­ríkj­anna, þrátt fyrir að eft­ir­spurn væri lítil sem eng­in. Einnig fékk Air Iceland Connect greiðslur fyrir að halda úti reglu­legu flugi frá Reykja­vík til Egils­staða og Ísa­fjarð­ar.

Auglýsing

Bókfærðar tekjur vegna þessara samninga á fyrri hluta ársins 2020 voru um tvær milljónir dala, eða 272 milljón króna. 

Lán frá viðskiptavinum

Í hálfsársuppgjöri Icelandair kemur fram að félagið hafi gefið út inneignir til viðskiptavina sinna fyrir alls 67,2 milljónir dala, rúmlega 9,1 milljarði króna, á fyrri helmingi ársins 2020. 

Það þýðir að félagið hafi fengið greiðslu fyrir flug að þeirri upphæð sem það hefur ekki getað flogið hingað til, en mun þurfa að gera til að standa við gerðar skuldbindingar án þess að fá neinar nýjar tekjur á móti. Upp­hæðin sem Icelandair hefur gefið út í inn­eignir sam­svarar um fjórð­ungi af öllum far­þega­tekjum Icelandair á öðrum árs­fjórð­ungi í fyrra.

Til að setja þessa upphæð í annað samhengi þá var hún um 44 prósent af öllu lausu fé Icelandair í lok júní, sem var 151,2 milljónir dala, um 20,6 milljarðar króna. Hratt hefur gengið á það lausafé á þessu ár og á öðrum ársfjórðungi einum saman lækkaði það um 46 prósent. 

Sótt verður í lífeyrissjóði almennings

Á mánudag greindi Icelandair frá því að félagið myndi fresta hlutafjárútboði sem átti upphaflega að fara fram í júní, var síðan fært fram í ágúst en mun nú fara fram í september ef núverandi hluthafar leyfa.

Icelandair þarf umtalsverða fjármuni til að lifa af. Skráningarlýsing félagsins verður birt á næstu dögum.
Mynd: Icelandair

Sú breyting hefur orðið á útboðinu að upphæðin sem stefnt er að því að sækja er lægri en áður var stefnt að og hún er nú sett fram í íslenskum krónum, ekki dölum, sem bendir til þess að markhópurinn sé fyrst og síðast íslenskir fjárfestar sem eiga mikið af íslenskum krónum.

Stjórnendur Icelandair hafa enda sagt það opinberlega að horft sé til samtals við helstu núverandi innlendu hluthafa um þátttöku í hlutafjárútboðinu. 

Þar eru fjórir íslenskir lífeyrissjóðir stærstir: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi og Birta. Eigendur lífeyrissjóðanna eru almenningur í landinu. 

Áratugur er síðan að Icelandair fór síðast í gegnum endurskipulagningu og á því tímabili hefur ávöxtun sjóðanna ekki verið beysin. Tveir þeirra hafa raunar tapað verulega á þeirri fjárfestingu, líkt og Kjarninn greindi frá nýverið. 

Í stað þess að sækja 200 milljónir dali, um 27,6 milljarða króna, ætlar Icelandair nú að ná í allt að 20 milljarða króna. Auk þess verður opnað fyrir þann möguleika að selja bréf upp á þrjá milljarða króna til viðbótar ef umframeftirspurn verður í útboðinu. 

Nýju hlutabréfin verða seld á genginu ein króna á hlut, sem var vel undir markaðsvirði Icelandair þegar tilkynnt var um breytt útboð, en það var þá 1,64 krónur. Hlutabréf í félaginu hrundi eðlilega í kjölfarið og er nú á svipuðum stað og útboðsgengið. Markaðsvirði Icelandair, sem var 191,5 milljarðar króna í apríl 2016, er nú undir sjö milljörðum króna. 

Þá hefur verið greint frá því að það sé til skoðunar hjá Icelandair að láta sölutryggja útboðið. Í því felst að gerður er samningur milli félagsins og banka um að sá síðarnefndi kaupi þau hlutabréf sem seljist ekki í útboðinu. Þannig liggur fyrir áður en farið er af stað að öll útgáfan seljist og það eykur líkur á þátttöku annarra fjárfesta. 

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins á fimmtudag eru það ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbanki, sem horft er á í þessu samhengi. Því gætu þeir, til viðbótar við þá fjármuni sem þeir hafa þegar lánað Icelandair, þær greiðslur sem bankarnir hafa heimilað Icelandair að fresta og 16,5 milljarða króna lánalínu, tekið að sér að kaupa hlutabréf í félaginu sem í versta falli myndu fela í sér, ef enginn áhugi yrði á útboðinu, að þeir leggðu út 20 milljarða króna til viðbótar. 

Lítur betur út 

Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði eru flestir á þeirri skoðun að ástæðan fyrir því að hlutafjárútboðið hafi verið dregið saman, og að verðið sé jafn lágt og raun ber vitni, sé til þess að reyna að auka líkurnar á að ofangreindir lífeyrissjóðir taki þátt í því. Stjórnendur þeirra hafa ekkert gefið upp opinberlega um áhuga á slíku enn sem komið er.

Flestir sem Kjarninn hefur rætt við telja að þær upplýsingar sem settar voru fram í kynningargögnum, sem sýndu að samningar sem Icelandair hefur gert við ýmsa kröfuhafa sína bæti lausafjárstöðu félagsins, eða dragi úr fjárhagslegum skuldbindingum þess, um alls 450 milljónir dali, eða um 61 milljarð króna, auki verulega á líkurnar á því að takist að selja hið nýja hlutafé. Því til viðbótar er því haldið fram að nýir samningar við flugmenn og flugfreyjur/-þjóna spari um 3,5 milljarða króna á ári í eðlilegu árferði og að Icelandair hafi áform um að gera flota sinn mun hagkvæmari í framtíðinni en hann er í dag. 

Þá þykja framtíðarsviðsmyndir félagsins raunhæfar. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar