Mynd: Icelandair

Icelandair segist spara sér 61 milljarð með samningum við kröfuhafa

Icelandair hefur birt innihald þeirra samninga sem félagið hefur gert við kröfuhafa og aðra hagaðila. Langmestu munar um samning við Boeing um að losna undan kaupskyldu á flugvélum og afslátt sem fæst á þeim vélum sem Icelandair mun samt þurfa að kaupa. Ríkisbankarnir hafa veitt félaginu greiðsluskjól og ætla að lána því yfir átta milljarða króna hvor, þurfi Icelandair á þeim fjármunum að halda.

Þeir samningar sem Icelandair Group hefur gert við ýmsa kröfuhafa sína bæta lausafjárstöðu félagsins, eða draga úr fjárhagslegum skuldbindingum þess, um alls 450 milljónir dali, eða um 61 milljarð króna. Þetta kemur fram í kynningargögnum vegna fyrirhugaðs hlutafjárútboðs félagsins sem birt voru í Kauphöll Íslands í gær. 

Til viðbótar hafa samningar við stærstu starfsstéttirnar sem starfa hjá félaginu skilað töluverðu kostnaðarhagræði, en í því felst að mestu að starfsmenn þurfa að skila fleiri tímum í vinnu en áður.

Nýtt samkomulag við flugmenn, sem felur í sér að þeir fljúga að jafnaði 15 prósent meira en áður, myndi hafa lækkað rekstrarkostnað Icelandair um 17 milljónir dala, um 2,3 milljarða króna, á árinu 2020 miðað við viðskiptaáætlanir félagsins áður en að kórónuveirufaraldurinn nær lokaði flugheiminum. 

Auglýsing

Nýtt samkomulag við flugfreyjur og -þjóna myndi skila því að sú stétt myndi líka vinna 15 prósent fleiri tíma en áður og hefði leitt af sér níu milljón dala, um 1,2 milljarða króna, ábata ef viðskiptaáætlanir Icelandair fyrir 2020 hefðu gengið eftir. Allir samningarnir eru til fimm ára. 

Boeing vigtar langt mest

Langstærsti hluti þess kemur til vegna samkomulags sem gert er við flugvélaframleiðandann Boeing. Icelandair pantaði 16 737-MAX vélar af fyrirtækinu árið 2013 og hafði fengið sex þeirra afhentar áður en að vélarnar voru kyrrsettar í mars í fyrra. Kyrrsetningin á vélunum kom til eftir flugslys í Eþíópíu, 13. mars 2019, þegar 157 létust skömmu eftir flugtak Max vélar Ethiopian Airlines. Það var þá annað slysið á skömmum tíma þar sem Max vél hrapaði með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Fyrra slysið var 29. október 2018, þegar vél Lion Air í Indónesíu hrapaði skömmu eftir flugtak. Þá létust 189, allir um borð.

Í samkomulaginu við Boeing, sem gert var í síðustu viku, felst að vélum sem Icelandair er skuldbundið til að kaupa til viðbótar, á grundvelli samningsins frá 2013, er fækkað úr tíu í sex. Auk þess er afhendingu þeirra frestað. Nú munu þrjár verða afhentar á komandi vetri og síðustu þrjár næsta vetur eftir. Icelandair býst við því að kyrrsetningu á MAX-vélunum verði aflétt á síðasta ársfjórðungi þessa árs. 

Fjárhagslegur ávinningur Icelandair af samkomulaginu við Boeing er áætlaður 260 milljónir dala, um 35 milljarðar króna. Því er 58 prósent af fjárhagslegum ávinningi af samningum við kröfuhafa og aðra hagaðila vegna þessa eina samkomulags. 

Yfirlit sem birt var í þeim gögnum sem Icelandair birti í Kauphöll í gærkvöldi.
Mynd: Skjáskot

Í því felst að hætt verður við kaup á fjórum vélum, þær bætur sem Icelandair fær vegna kyrrsetningar á Max vélunum og afsláttur á þeim vélum sem Icelandair á eftir að fá afhentar. Ekki er gerð sundurliðum á þessu í gögnunum.

Munu geta endurgreitt viðskiptavinum

Samkomulag við lánardrottna Icelandair, sem eru fjórir talsins, skilar 103 milljónum dala, um 14 milljörðum króna, í bættri lausafjárstöðu og lægri fjárhagslegum skuldbindingum. Á meðal þeirra sem falla undir það samkomulag eru ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbankinn, sem báðir eru stórir lánveitendur Icelandair. 

Þessi árangur næst með því að öllum greiðslum af lánum er frestað í 24 mánuði, og bætir það lausafjárstöðu Icelandair um 51 milljón dali, eða tæpa sjö milljarða króna. Þá er búið að tryggja félaginu lánalínu frá lánveitendum upp á næstum sömu fjárhæð. Auk þess hefur náðst samkomulag um að breyta skilmálum í lánasamningum sem gildir fram á árið 2022 svo að Icelandair sé ekki brotlegt við þá, líkt og félagið er í dag. 

Auglýsing

Samkomulag við færsluhirða skilar því að hægt verður að endurgreiða farþegum allt að 31 milljón dali, um 4,2 milljarða króna. Í hálfsársuppgjöri Icelandair kemur fram að félagið hafi gefið út inneignir til viðskiptavina sinna fyrir alls 67,2 milljónir dala, rúmlega 9,1 milljarði króna, á fyrri helmingi ársins 2020. 

Leigusalar Icelandair, sem leigja félaginu flugvélar, hafa samþykkt að fresta greiðslum í allt að tólf mánuði sem bætir lausafjárstöðu félagsins um níu milljónir dala, um 1,2 milljarða króna. Þá hefur félagið náð samningum vegna framvirka varna á kaupum á flugvélaeldsneyti, sem urðu afar óhagstæðar fyrr á þessu ári, um að fresta greiðslum eða loka samningunum. Ávinningur af þessu er áætlaður tæpur milljarður króna.

Að lokum hafa samningar við aðra birgja en Boeing skilað töluverðu hagræði, eða allt að 40 milljónum dala. Þar er meðal annars átt við kaup af birgjum sem selja upplýsingatækni, flugvélaeldsneyti og ýmiskonar flugvallaþjónustu.  

Bankarnir lána jafnt

Í gær var greint frá því að íslenska ríkið ætlaði að ábyrgjast 90 prósent af 16,5 milljarða króna láni ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans til Icelandair, takist félaginu að safna því hlutafé sem það ætlar sér í komandi hlutfjárútboði í september.

Í gögnunum sem birt voru í gær kemur fram að ríkisbankarnir tveir muni lána jafnháa upphæð hvor, eða 8,25 milljarða króna. 

Um er að ræða lánalínu sem Icelandair getur dregið á næstu tvö árin en þarf að greiða upp í síðasta lagi eftir fimm ár. Félagið getur borgað upp lánalínuna á meðan að á ádráttartímabilinu stendur, kjósi það svo. Skilmálar lánalínunar gera ráð fyrir að eiginfjárhlutfall Icelandair þurfi að vera yfir tvö prósent. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar