heinasteskipið.jpg

Samherji greiddi hærra hlutfall af virði afla í veiðigjöld í Namibíu árið 2018 en á Íslandi

Veiðigjöld hækkuðu umtalsvert í Namibíu árið 2018. Fram að þeim tíma hafði Samherji einungis greitt í kringum eitt prósent af söluandvirði afla í veiðigjöld. Á Íslandi hefur þróunin hins vegar verið að mestu öfug. Fyrirtækið greiðir nú mun minna hlutfall af söluandvirði í veiðigjöld í ríkissjóð en það gerði árin 2012 og 2013.

Á árinu 2018 greiddi Samherji tíu prósent af meðalverði þess hrossamakríls sem fyrirtækið veiddi í Namibíu í veiðigjöld þar í landi. Á sama tíma greiddi Samherji 8,4 prósent af meðalverði þess afla sem það veiddi á Íslandi í veiðigjöld til ríkissjóðs Íslands. 

Því var staðan þannig á árinu 2018 að Samherji greiddi hlutfallslega hærri veiðigjöld í Namibíu fyrir að veiða einvörðungu hrossamakríl en fyrirtækið gerði fyrir að veiða t.d. þorsk, karfa, síld og loðnu samkvæmt úthlutuðum veiðiheimildum hérlendis. 

Þetta kemur fram í skýrslu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um samanburð á greiðslu Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi. Skýrslunni, sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, var skilað inn til ráðuneytisins 24. júní, enn fyrst birt í gær, 54 dögum síðar. 

Ekki hægt að svara beiðninni eins og hún var sett fram

Í skýrslubeiðninni var kallað eftir upplýsingum að Kristján Þór myndi flytja Alþingi skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi á grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu og í þeim skjölum sem RÚV fjallaði um í fréttaskýringaþættinum Kveik, þar sem meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðganga fyrirtækisins þar í landi var opinberuð. Óskað var eftir því að samanburðurinn yrði gerður á  grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu og þeim skjölum sem RÚV hefði fjallað um í þættinum, en frumgögn sem þátturinn byggði meðal annars á voru birt af Wikileaks í kjölfar sýningu þáttarins.

Auglýsing

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands taldi sig hins vegar ekki geta svarað skýrslubeiðninni eins og hún væri sett fram, og því var einungis stuðst við opinberar upplýsingar og upplýsingar frá Samherja. 

Í inngangi skýrslunnar segir er þessi afstaða útskýrð með eftirfarandi hætti: „Ásakanir sem komu fram í Kveik um greiðslur til þeirra sem úthlutuðu veiðirétti í Namibíu eru til rannsóknar hjá yfirvöldum á Íslandi og í Namibíu. Ríkisútvarpið hefur eftir Karli Cloete, einum aðalrannsakanda spillingarlögreglu í Namibíu, í frétt 27. maí, að fjárhæðin, sem ráðamenn í Namibíu eru kærðir fyrir að hafa þegið til þess að tryggja fyrirtækjum í eigu Íslendinga veiðileyfi, sé nú 130 milljónir namibískra dollara, en það jafngildir 1 milljarði íslenskra króna miðað við gengi 27. maí. Hann gerir ráð fyrir að fjárhæðin eigi eftir að hækka [...]Meðan beðið er niðurstöðu rannsókna er vart við hæfi að taka afstöðu til kæruefnanna og er því ekki fjallað um þau í skýrslunni.“

Veiðigjöldin hækkuðu skarpt árið 2018

Í skýrslunni kemur fram að Samherji hafi alls greitt 1,5 milljarða króna í veiðigjöld í Namibíu á árunum 2012 til 2018. Verðmæti þess afla sem Samherji veiddi í Namibíu á því tímabili var 50,4 milljarðar króna á tímabilinu. Langmestu verðmætin féllu til árið 2018, þegar virði afla var 11,1 milljarðar króna og greidd veiðigjöld voru 1,1 milljarðar króna. Samanlögð veiðigjöld fyrir fyrir árin 2012 til 2017, þegar söluverðmæti afla í Namibíu var 39,3 milljarðar króna, voru 414 milljónir króna. 

Kristján Þór Júlíusson lét vinna skýrsluna. Hún var tilbúin í júní en var ekki birt fyrr en 54 dögum síðar.
Mynd: Bára Huld Beck

Vert er að taka fram að tölurnar byggja á upplýsingum sem Samherji lét Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í té um afla útgerða sinna í Namibíu. 

Ástæða þess að veiðigjöldin voru svo lág árin 2012 til 2017 er sú að á þeim árum var ákveðið gjald greitt fyrir hvert tonn af veiddum hrossamakríl í Namibíu, en það gjald var það lágt að greidd veiðigjöld voru á bilinu 0,8 til 1,3 prósent af meðalverði aflans. 

Árið 2018 breyttist hins vegar veiðigjaldakerfið í Namibíu og veiðigjöldin voru þá skilgreind sem hlutfall af aflaverðmæti. Fyrir skip sem vann fiskinn um borð og var með bækistöðvar í Namibíu, líkt og Samherji segist hafa verið með, var það hlutfall tíu prósent. 

Greiddu samtals meira í veiðigjöld á Íslandi

Á sama tímabili, 2012 til 2018, greiddi fyrirtækið 4,7 milljarða króna í veiðigjöld á Íslandi. Í heild greiddi fyrirtækið því hærri veiðigjöld hérlendis á tímabilinu en í Namibíu en hafa ber í huga að starfsemi Samherja var mun umfangsmeiri á Íslandi en í Namibíu á tímabilinu. 

Auglýsing

Það hlutfall af meðalverði sem Samherji greiddi í veiðigjöld var líka afar misjafnt milli ára. Árið 2012 var það til að mynda 12,4 prósent af meðalverði og árið 2013 15,1 prósent. 

Það ár urðu ríkisstjórnarskipti og voru veiðigjöld lækkuð skömmu eftir að ný stjórn tók við. 

Síðan þá, á árunum 2014 og út árið 2018, hafa veiðigjöld Samherja, verið 5,1 til 10,9 prósent af meðalverði afla. Lægst voru þau árið 2016 en árið 2018, líkt og áður sagði, 8,4 prósent. 

Þörf á góðu sambandi við ráðherra

Í skýrslunni er fjallað um þann mun sem er á fyrirkomulagi aflaheimilda á Íslandi og í Namibíu. Þar segir að á Íslandi sé réttur handhafa til þess að nýta aflahlutdeildir ótímabundinn. Rétturinn gangi kaupum og sölum á markaði og skip heldur sinni aflahlutdeild þar til hún sé færð á annað skip eða seld öðru fyrirtæki. „Í Namibíu er aflaheimild ekki eins traust. Þar þurfa fyrirtæki að hafa nýtingarrétt fyrir fisktegundir sem þau vilja veiða. Nýtingarrétti er úthlutað í 7, 10 eða 15 ár í senn. Ef fyrirtæki á nýtingarrétt getur það fengið úthlutað kvóta. Á hverju ári ákveður ráðherra hvert aflamark er fyrir hverja tegund og hann úthlutar kvóta til handhafa nýtingarréttar eftir hentisemi. Ráðherra má einnig halda eftir hluta kvótans og úthluta honum seinna á árinu[...]Þetta gerir ráðherra kleift að nota kvótann sem valdbeitingartæki gegn útgerðunum. Því er ekki hægt að treysta á að hægt sé að starfrækja útgerð til langs tíma án þess að vera í góðu sambandi við ráðherra.“

18 þingmenn lögðu fram beiðnina

Skýrslubeiðnin var lögð fram af 18 þingmönnum þann 3. febrúar síðastliðinn. Fyrsti flutn­ings­maður skýrslu­beiðn­innar var Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ur, for­maður Við­reisn­ar, en með henni voru 17 þing­menn úr Við­reisn, Píröt­um, Sam­fylk­ing­unni og þing­manni utan flokka.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður beiðni um að skýrslan yrði gerð.
mynd: Bára Huld Beck

Í grein­ar­gerð með skýrslu­beiðn­inni sagði að ákvörðun veiði­gjalda hafi lengi verið ágrein­ings­mál í íslenskum stjórn­mál­um. Ekki hafi verið meiri­hluti fyrir því að láta gjald fyrir afnot af sam­eig­in­legri auð­lind lands­manna ráð­ast á mark­aði þar sem til­tek­inn hluti veiði­heim­ilda yrði ár hvert boð­inn til sölu til ákveð­ins tíma. 

Þess í stað hafi gjaldið verið ákveðið með lög­um, sem sætt hafa reglu­legum breyt­ing­um. „End­ur­gjald fyrir einka­af­not af sam­eig­in­legri auð­lind þjóð­ar­innar hefur þannig verið háð póli­tísku mati. Það póli­tíska mat hefur aftur í veru­legum atriðum byggst á áliti þeirra hags­muna­að­ila í útgerð sem eru full­trúar þeirra fyr­ir­tækja sem gjaldið greiða. Með öðrum orðum hafa verið bein tengsl á milli þess sem útgerð­irnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meiri­hluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt.“

Þær upp­lýs­ingar sem fram hafi komið í svoköll­uðum Sam­herj­a­skjöl­um, sem RÚV fjall­aði um í frétta­skýr­inga­þætt­inum Kveik, hafi gefið til­efni til að bera saman hvað eitt af stærstu og áhrifa­rík­ustu fyr­ir­tækj­unum á þessu sviði væri reiðu­búið til að greiða fyrir veiði­rétt á Íslandi og í Namib­íu.


Lestu meira:

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar