heinasteskipið.jpg

Samherji greiddi hærra hlutfall af virði afla í veiðigjöld í Namibíu árið 2018 en á Íslandi

Veiðigjöld hækkuðu umtalsvert í Namibíu árið 2018. Fram að þeim tíma hafði Samherji einungis greitt í kringum eitt prósent af söluandvirði afla í veiðigjöld. Á Íslandi hefur þróunin hins vegar verið að mestu öfug. Fyrirtækið greiðir nú mun minna hlutfall af söluandvirði í veiðigjöld í ríkissjóð en það gerði árin 2012 og 2013.

Á árinu 2018 greiddi Sam­herji tíu pró­sent af með­al­verði þess hrossa­makríls sem fyr­ir­tækið veiddi í Namibíu í veiði­gjöld þar í landi. Á sama tíma greiddi Sam­herji 8,4 pró­sent af með­al­verði þess afla sem það veiddi á Íslandi í veiði­gjöld til rík­is­sjóðs Íslands. 

Því var staðan þannig á árinu 2018 að Sam­herji greiddi hlut­falls­lega hærri veiði­gjöld í Namibíu fyrir að veiða ein­vörð­ungu hrossa­makríl en fyr­ir­tækið gerði fyrir að veiða t.d. þorsk, karfa, síld og loðnu sam­kvæmt úthlut­uðum veiði­heim­ildum hér­lend­is. 

Þetta kemur fram í skýrslu Krist­jáns Þórs Júl­í­us­sonar, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, um sam­an­burð á greiðslu Sam­herja fyrir veiði­rétt í Namibíu og á Íslandi. Skýrsl­unni, sem unnin var af Hag­fræði­stofnun Háskóla Íslands, var skilað inn til ráðu­neyt­is­ins 24. júní, enn fyrst birt í gær, 54 dögum síð­ar. 

Ekki hægt að svara beiðn­inni eins og hún var sett fram

Í skýrslu­beiðn­inni var kallað eftir upp­lýs­ingum að Krist­ján Þór myndi flytja Alþingi skýrslu um sam­an­burð á greiðslum Sam­herja fyrir veiði­rétt í Namibíu og á Íslandi á grund­velli upp­lýs­inga frá Fiski­stofu og í þeim skjölum sem RÚV fjall­aði um í frétta­skýr­inga­þætt­inum Kveik, þar sem meintar mútu­greiðsl­ur, pen­inga­þvætti og skatta­snið­ganga fyr­ir­tæk­is­ins þar í landi var opin­beruð. Óskað var eftir því að sam­an­burð­ur­inn yrði gerður á  grund­velli upp­lýs­inga frá Fiski­stofu og þeim skjölum sem RÚV hefði fjallað um í þætt­in­um, en frum­gögn sem þátt­ur­inn byggði meðal ann­ars á voru birt af Wiki­leaks í kjöl­far sýn­ingu þátt­ar­ins.

Auglýsing

Hag­fræði­stofnun Háskóla Íslands taldi sig hins vegar ekki geta svarað skýrslu­beiðn­inni eins og hún væri sett fram, og því var ein­ungis stuðst við opin­berar upp­lýs­ingar og upp­lýs­ingar frá Sam­herj­a. 

Í inn­gangi skýrsl­unnar segir er þessi afstaða útskýrð með eft­ir­far­andi hætti: „Ásak­anir sem komu fram í Kveik um greiðslur til þeirra sem úthlut­uðu veiði­rétti í Namibíu eru til rann­sóknar hjá yfir­völdum á Íslandi og í Namib­íu. Rík­is­út­varpið hefur eftir Karli Cloete, einum aðal­rann­sak­anda spill­ing­ar­lög­reglu í Namib­íu, í frétt 27. maí, að fjár­hæð­in, sem ráða­menn í Namibíu eru kærðir fyrir að hafa þegið til þess að tryggja fyr­ir­tækjum í eigu Íslend­inga veiði­leyfi, sé nú 130 millj­ónir namibískra doll­ara, en það jafn­gildir 1 millj­arði íslenskra króna miðað við gengi 27. maí. Hann gerir ráð fyrir að fjár­hæðin eigi eftir að hækka [...]­Meðan beðið er nið­ur­stöðu rann­sókna er vart við hæfi að taka afstöðu til kæru­efn­anna og er því ekki fjallað um þau í skýrsl­unn­i.“

Veiði­gjöldin hækk­uðu skarpt árið 2018

Í skýrsl­unni kemur fram að Sam­herji hafi alls greitt 1,5 millj­arða króna í veiði­gjöld í Namibíu á árunum 2012 til 2018. Verð­mæti þess afla sem Sam­herji veiddi í Namibíu á því tíma­bili var 50,4 millj­arðar króna á tíma­bil­inu. Lang­mestu verð­mætin féllu til árið 2018, þegar virði afla var 11,1 millj­arðar króna og greidd veiði­gjöld voru 1,1 millj­arðar króna. Sam­an­lögð veiði­gjöld fyrir fyrir árin 2012 til 2017, þegar sölu­verð­mæti afla í Namibíu var 39,3 millj­arðar króna, voru 414 millj­ónir króna. 

Kristján Þór Júlíusson lét vinna skýrsluna. Hún var tilbúin í júní en var ekki birt fyrr en 54 dögum síðar.
Mynd: Bára Huld Beck

Vert er að taka fram að töl­urnar byggja á upp­lýs­ingum sem Sam­herji lét Hag­fræði­stofnun Háskóla Íslands í té um afla útgerða sinna í Namib­íu. 

Ástæða þess að veiði­gjöldin voru svo lág árin 2012 til 2017 er sú að á þeim árum var ákveðið gjald greitt fyrir hvert tonn af veiddum hrossa­makríl í Namib­íu, en það gjald var það lágt að greidd veiði­gjöld voru á bil­inu 0,8 til 1,3 pró­sent af með­al­verði afl­ans. 

Árið 2018 breytt­ist hins vegar veiði­gjalda­kerfið í Namibíu og veiði­gjöldin voru þá skil­greind sem hlut­fall af afla­verð­mæti. Fyrir skip sem vann fisk­inn um borð og var með bæki­stöðvar í Namib­íu, líkt og Sam­herji seg­ist hafa verið með, var það hlut­fall tíu pró­sent. 

Greiddu sam­tals meira í veiði­gjöld á Íslandi

Á sama tíma­bili, 2012 til 2018, greiddi fyr­ir­tækið 4,7 millj­arða króna í veiði­gjöld á Íslandi. Í heild greiddi fyr­ir­tækið því hærri veiði­gjöld hér­lendis á tíma­bil­inu en í Namibíu en hafa ber í huga að starf­semi Sam­herja var mun umfangs­meiri á Íslandi en í Namibíu á tíma­bil­in­u. 

Auglýsing

Það hlut­fall af með­al­verði sem Sam­herji greiddi í veiði­gjöld var líka afar mis­jafnt milli ára. Árið 2012 var það til að mynda 12,4 pró­sent af með­al­verði og árið 2013 15,1 pró­sent. 

Það ár urðu rík­is­stjórn­ar­skipti og voru veiði­gjöld lækkuð skömmu eftir að ný stjórn tók við. 

Síðan þá, á árunum 2014 og út árið 2018, hafa veiði­gjöld Sam­herja, verið 5,1 til 10,9 pró­sent af með­al­verði afla. Lægst voru þau árið 2016 en árið 2018, líkt og áður sagði, 8,4 pró­sent. 

Þörf á góðu sam­bandi við ráð­herra

Í skýrsl­unni er fjallað um þann mun sem er á fyr­ir­komu­lagi afla­heim­ilda á Íslandi og í Namib­íu. Þar segir að á Íslandi sé réttur hand­hafa til þess að nýta afla­hlut­deildir ótíma­bund­inn. Rétt­ur­inn gangi kaupum og sölum á mark­aði og skip heldur sinni afla­hlut­deild þar til hún sé færð á annað skip eða seld öðru fyr­ir­tæki. „Í Namibíu er afla­heim­ild ekki eins traust. Þar þurfa fyr­ir­tæki að hafa nýt­ing­ar­rétt fyrir fisk­teg­undir sem þau vilja veiða. Nýt­ing­ar­rétti er úthlutað í 7, 10 eða 15 ár í senn. Ef fyr­ir­tæki á nýt­ing­ar­rétt getur það fengið úthlutað kvóta. Á hverju ári ákveður ráð­herra hvert afla­mark er fyrir hverja teg­und og hann úthlutar kvóta til hand­hafa nýt­ing­ar­réttar eftir henti­semi. Ráð­herra má einnig halda eftir hluta kvót­ans og úthluta honum seinna á árin­u[...]Þetta gerir ráð­herra kleift að nota kvót­ann sem vald­beit­ing­ar­tæki gegn útgerð­un­um. Því er ekki hægt að treysta á að hægt sé að starf­rækja útgerð til langs tíma án þess að vera í góðu sam­bandi við ráð­herra.“

18 þing­menn lögðu fram beiðn­ina

Skýrslu­beiðnin var lögð fram af 18 þing­mönnum þann 3. febr­úar síð­ast­lið­inn. Fyrsti flutn­ings­­maður skýrslu­beiðn­­innar var Þor­­gerður Katrín Gunn­­ar­s­dótt­­ur, for­­maður Við­reisn­­­ar, en með henni voru 17 þing­­menn úr Við­reisn, Píröt­um, Sam­­fylk­ing­unni og þing­­manni utan flokka.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður beiðni um að skýrslan yrði gerð.
mynd: Bára Huld Beck

Í grein­­ar­­gerð með skýrslu­beiðn­­inni sagði að ákvörðun veið­i­­gjalda hafi lengi verið ágrein­ings­­mál í íslenskum stjórn­­­mál­­um. Ekki hafi verið meiri­hluti fyrir því að láta gjald fyrir afnot af sam­eig­in­­legri auð­lind lands­­manna ráð­­ast á mark­aði þar sem til­­­tek­inn hluti veið­i­­heim­ilda yrði ár hvert boð­inn til sölu til ákveð­ins tíma. 

Þess í stað hafi gjaldið verið ákveðið með lög­­um, sem sætt hafa reglu­­legum breyt­ing­­um. „End­­ur­­gjald fyrir einka­af­not af sam­eig­in­­legri auð­lind þjóð­­ar­innar hefur þannig verið háð póli­­tísku mati. Það póli­­tíska mat hefur aftur í veru­­legum atriðum byggst á áliti þeirra hags­muna­að­ila í útgerð sem eru full­­trúar þeirra fyr­ir­tækja sem gjaldið greiða. Með öðrum orðum hafa verið bein tengsl á milli þess sem útgerð­­irnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meiri­hluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt.“

Þær upp­­lýs­ingar sem fram hafi komið í svoköll­uðum Sam­herj­­a­skjöl­um, sem RÚV fjall­aði um í frétta­­skýr­inga­þætt­inum Kveik, hafi gefið til­­efni til að bera saman hvað eitt af stærstu og áhrifa­­rík­­­ustu fyr­ir­tækj­unum á þessu sviði væri reið­u­­búið til að greiða fyrir veið­i­­rétt á Íslandi og í Namib­­íu.Lestu meira:

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar