Auglýsing

Frá 11. ágúst hefur staðið yfir ekkert sérstaklega fyndinn farsi. Sá sem staðið hefur fyrir honum er alþjóðlegt stórfyrirtæki í sjávarútvegi, Samherji. Félag sem veltir tugum milljarða króna á ári og er í eigu valdamestu manna á Íslandi. Manna sem halda á, beint eða óbeint, um 17,1 prósent af úthlutuðum afla á Íslandi, ráða stærsta skipafélagi landsins, eiga fasteignafélag sem er að byggja nýjan miðbæ á Selfossi, eiga hlut í einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins og greiddu árum saman botnlausan tapreksturs annars, þangað til að þeir gáfu kjörnum fulltrúa stærsta stjórnmálaflokks landsins hlut sinn í því tapi. Svo fátt eitt sé nefnt. 

Þennan dag birti Samherji á heimasíðu sinni, þeirri sömu og fyrirtækið notar í daglegum viðskiptum sínum, langan texta um meintar rangfærslur óbilgjarnra blaðamanna og fjölmiðla, og með hlekk inn á áróðursþátt sem fyrirtækið hafði látið framleiða um málið. 

Innihald þáttarins, sem var meðal annars unninn af fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni sem hefur starfað fyrir Samherja árum saman með aðstoð fyrrverandi fjölmiðlamanns sem hefur starfað fyrir fyrirtækið síðasta tæpa árið, snerist um að ráðast gegn æru og trúverðugleika Helga Seljan og RÚV. 

Brúnaþungir menn skilgreina hvað sé skýrsla

Í fyrsta kasti snerist þáttagerðin um að halda því fram að fréttaskýringaþáttur Kastljóss frá árinu 2012, þar sem Samherji var til umfjöllunar, hefði byggt á skýrslu sem blaðamaðurinn hefði falsað, en í sama þætti var því reyndar líka haldið fram að skýrslan væri ekki til. Í þættinum voru sumir viðmælendur kynntir til leiks sem óháðir sérfræðingar, án þess að það væri sérstaklega tilgreint að þeir sinna allir störfum fyrir Samherja.

Þegar búið var að sýna fram á, með vitnisburði tveggja manna sem höfðu sömu skýrslu undir höndum, að skýrslan var sannarlega til sendi Verðlagsstofa skiptaverðs frá sér tilkynningu um að svo væri, en hún væri reyndar miklu frekar einhverskonar vinnugagn.

Auglýsing
Þá fór Samherji af stað með nýjan þátt þar sem nokkrir brúnaþungir menn á miðjum aldri, að mestu borgaðir af Samherja, útskýrðu með þunga að gögnin sem um ræddi væru í raun ekki skýrsla, heldur eitthvað annað og léttvægara. 

Skyndilega urðu merkilega margir einstaklingar, sem eru fyrirferðamiklir á samfélagsmiðlum eða í skoðanaskrifum fjölmiðla, orðnir sérfræðingar í skýrsluskilgreiningum. Og eyddu ómældum tíma og orku í að kýta um hvort skjal væri gagn/skýrsla/greinargerð/minnisblað/A4-knippi eða mögulega eitthvað allt annað og enn frumstæðara. 

Auðvitað voru þetta einungis hártoganir um aukaatriði drifnar áfram af þeim sem tóku jákvæða afstöðu gagnvart innihaldi áróðursmyndbands stórfyrirtækis, sem raunveruleikinn og staðreyndir hafa síðan sýnt fram á að var rangt. 

Íslenska „birther“ umræðan

Ef eitthvað keppir við gagnaeinkenna-umræðuna í vitleysu þá var það krafa um að það þyrfti að birta gagnið til að „sanna“ að það væri raunverulega til og að satt hafi verið greint frá innihaldi þess, þrátt fyrir að tveir menn sem höfðu gagnið undir höndum fyrir átta árum hafi staðfest að svo sé. Bæði fjölmiðla- og stjórnmálamenn tóku þátt í þeirri vegferð. 

Sú umræða minnti á hina svokölluðu „birther-kenningu“ sem teflt var fram í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum, og fól í sér að Barack Obama þyrfti að opinbera fæðingarvottorð sitt til að „sanna“ að hann væri fæddur í Bandaríkjunum. Svo lengi sem hann gerði það ekki væri réttmætur efi um það, þrátt fyrir að Obama væri skjalfestur bandarískur ríkisborgari. Á sama hátt lá fyrir að Kastljós hafði fjallað um skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs í umfjöllun sinni fyrir átta árum, enda var skýrslan birt í þættinum. 

Samherji hefur enda aldrei véfengt efnislegt innihald skýrslunnar, sem snýst um verð á karfa. Áróðursleið þeirra er ætið sú að láta efnisatriðin vera en festa sig í forminu og skjóta síðan sendiboðann. Helst með fallbyssu. Skotin hafa hins vegar öll sprungið í hlaupinu. Og framan í Samherja.

Óheppnir með starfsfólk

Þótt hér sé þetta fordæmalausa mál kallað farsi, þá ber auðvitað ekki að taka því með neinni léttúð.

Málið á sér fjölmargar alvarlegar hliðar. Fyrst ber auðvitað að nefna að hér er um að ræða tilraun stórfyrirtækis til að ráðast gegn nafngreindu fólki og mikilvægum fjölmiðlum með áróðri og atvinnurógi að því er virðist vegna þess að Samherji var opinberaður af sömu aðilum fyrir starfshætti sína í Namibíu, sem fólu meðal annars í sér meintar mútugreiðslur. 

Í nýlegu bréfi sem annar forstjóri fyrirtækisins, Björgólfur Jóhannsson, sendi erlendri fréttastofu virðist hann staðfesta nokkur óyggjandi að greiðslur hafi átt sér stað sem feli í sér brot, þótt hann reyni áfram sem áður að vísa ábyrgðinni á starfsmenn sem framkvæmdu gjörninginn, og frá þeim sem framkvæmdaaðilarnir hafa sagt að beri ábyrgð á að taka ákvörðun um hann. „Það er eng­inn vafi að Sam­herja hefur mis­tek­ist að verja dótt­ur­fé­lög sín gegn brotum ein­stak­linga. Okkur þykir það mjög leitt,“ sagði Björgólfur í bréfinu. 

Það rímar vel við fyrri réttlætingar stjórnenda fyrirtækisins, um að brotin hafi verið framin af óheiðarlegu starfsfólki, ekki stjórnendum eða eigendum sem högnuðust mest á þeim. Ógæfa Samherja hafi verið sú að fyrirtækið sé óheppið í mannaráðningum. Fyrirtækið var ekki gerandi, heldur fórnarlamb. 

Tilraun til að afnema vernd heimildarmanna

Hitt sem er ekki síður alvarlegt og hættulegt í þessu máli snýr að makalausri kröfu lögmanns Samherja sem send var til útvarpsstjóra eftir birtingu fyrsta áróðursþáttarins. Í henni fólst að fá afhent gögn sem fréttamaður fékk afhent frá heimildarmanni, sem innihalda persónugreinanlegar upplýsingar, á grundvelli upplýsingalaga. 

Markmið þeirra laga er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna. Þótt RÚV sem opinbert fyrirtæki falli eðlilega undir þau lög, til dæmis hvað varðar rekstrarupplýsingar, þá getur fréttastofa RÚV eða fréttamenn þess ekki gert það. 

Auglýsing
Í lögum um fjölmiðla er grein sem fjallar um vernd heimildarmanna. Þar segir að starfsmönnum fjölmiðlaveitu sé „óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar.“ 

Þetta er heilög grundvallarregla og hana má ekki brjóta. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl um hvað það myndi gera fyrir starfsaðstæður, trúverðugleika og getu fréttastofu RÚV til að sinna starfi sínu ef upplýsingalög ættu að fara að gilda um samskipti fréttamanna við heimildarmenn. Hún gæti bara lokað.

Þess vegna olli vonbrigðum að RÚV hafi svarað kröfu lögmanns Samherja efnislega með því að segja að skýrslan væri ekki í vörslu fyrirtækisins, en að hægt væri að nálgast hana hjá Seðlabanka Íslands, sem fékk afrit af henni, eða Verðlagsstofu skiptaverðs á Akureyri. Útvarpsstjóri hefði átt að svara: Það kemur aldrei til greina að afhenda gögn sem fréttamenn fá frá heimildarmönnum. Frekari samræða er óþörf.

Eltihrelling blaðamanna 

Það sem virtist ætla að vera síðasta hluti þessa farsa hófst svo í byrjun viku þegar títtnefnd Verðlagsstofa skiptaverðs, sem hafði í tölvupósti til Samherja 4. apríl sagt að engin skýrsla hefði verið samin, og í yfirlýsingu til fjölmiðla 12. ágúst sagt að samantektin væri til en að um hafi verið að ræða excelskjal, fann skýrsluna sem Kastljós studdist við. Hún hafði verið vistuð utan hefðbundins skjalakerfis, er þrjár blaðsíður og uppfyllir þær kröfur sem skýrsluskilgreiningarsérfræðingar landsins töldu að skýrsla þyrfti að innihalda til að vera skýrsla. Á meðal þess er niðurstöðukafli þar sem þáverandi starfsmaður Verðlagsstofu dregur ályktanir af gögnunum sem voru til umfjöllunar. 

Það er því búið að eyða ævintýralegum tíma og orku í að karpa um eitthvað sem var ekkert. 

Fréttaskýring Kjarnans, sem birtist á fimmtudag framlengdi hins vegar málið og gerði það enn óþægilegra. Hún fjallaði um margháttaða eltihrella-tilburði fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, Jóns Óttars Ólafssonar, sem hefur ofsótt Helga Seljan með því að elta hann og senda honum ógnandi skilaboð í gegnum SMS og samfélagsmiðla. Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður Stundarinnar, hefur einnig fengið hótanir um „umfjöllun“ í skilaboðum frá Jóni Óttari, sem hefur starfað fyrir Samherja árum saman, meðal annars í Namibíu og við gerð áróðursþáttanna sem birtir hafa verið undanfarið. 

Báðir blaðamennirnir sem urðu fyrir honum léku lykilhlutverk í opinberun íslenskra fjölmiðla á starfsháttum Samherja í Namibíu í nóvember í fyrra.

Aldrei áður hefur slíkt kerfibundið áreiti átt sér stað gegn blaðamönnum á Íslandi úr hendi manns sem þiggur lífsviðurværi sitt úr hendi stórfyrirtækis sem er í opinberum stríðrekstri gegn sömu einstaklingum. 

Ekki í umboði Samherja

Það er vel að öðrum forstjóra Samherja, Björgólfi Jóhannssyni, hafi verið brugðið þegar honum var tilkynnt um áreiti mannsins. Það er vel að hann sagði í samtali við Kjarnann að það væri ekki í umboði Samherja. Engin ástæða er til annars en að taka þau orð trúanleg.

En öllum hlýtur að vera ljóst að vinnusamband mannsins við Samherja, og það sem hefur falist í vinnu hans undanfarin ár, er líklegasti hvatinn að því að hann ákvað að ofsækja blaðamenn með þessum hætti. 

Sjálfur segir Jón Óttar í yfirlýsingu til Kjarnans að um dómgreindarbrest hafi verið að ræða af hans hálfu. Hann bað Helga Seljan afsökunar og staðfesti orð Björgólfs um að stjórnendur Samherja hefðu ekki haft vitneskju um skilaboðin sem hann sendi til blaðamannsins.

En yfirlýsingin er líka réttlæting á gjörðum hans. Hluti af áreitinu gagnvart Helga Seljan fólst í því að Jón Óttar hóf að mæta reglulega á kaffihús sem sá fyrrnefndi sækir á morgnana. Hann segir að þær heimsóknir hafi ekki verið til að elta Helga.

Þær skýringar standast illa þegar skilaboð sem hann sendi Helga þann 11. ágúst, sama dag og fyrsti áróðursþáttur Samherja fór í loftið, eru skoðuð. Í þeim stendur: „Hræsnin i ykkur. En takk fyrir godar stundir á kaffihúsi góða og gáfaða fólksins. Kem ekki aftur þangað. Þarf þess ekki😂😂“.

Gerendur verða fórnarlömb

Í yfirlýsingunni segir Jón Óttar enn fremur: „Án þess að ég vilji reyna að rétt­læta skila­boðin og efni þeirra finnst mér mik­il­vægt að fram komi að ég hef und­an­farið verið undir miklu álagi. Einkum vegna nei­kvæðrar umfjöll­unar í fjöl­miðlum um mig per­sónu­lega. Nær öll skila­boðin voru send fyrr í þessum mán­uði þegar umrædd fjöl­miðlaum­fjöllun var hvað mest áber­andi með til­heyr­andi óþæg­indum fyrir mig og fjöl­skyldu mína.“

Erfitt er að lesa mikla iðrun út úr þessum orðum. Jón Óttar lítur þvert á móti á sig sem fórnarlamb. Alveg eins og að Samherji  og helstu stjórnendur/eigendur þess líta á sig sem fórnarlömb, ekki gerendur, í Namibíumálinu. 

Það ber að taka þessa einstæðu atburðarás í Íslandssögunni alvarlega. Hún er birtingarmynd á ofsóknum gagnvart fjölmiðlum og fjölmiðlafólki sem er ekki hægt að líða. Kollegar þurfa að standa upp og standa með þeim sem fyrir þessu verða, í stað þess að vera viljug verkfæri í höndum gerendanna. Það þarf almenningur og sér í lagi stjórnmálamenn líka að gera ef þeir telja frjálsa og gagnrýna fjölmiðla þjóna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki.

Það er stórmál þegar stórfyrirtæki fara í stríð við fólk fyrir það að reyna að vinna vinnuna sína, og reyna að svipta því ærunni og framfærslu. Það er stórmál þegar þau ógna tilverugrundvelli þeirra og fjölskyldna þeirra. Það er stórmál þegar staðreyndir verða aukaatriði í slíku ferli. 

Og það er stórmál þegar farið er að hrella blaðamenn skipulega á hátt sem þeir upplifa sem beinar hótanir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari