Áætlað er að neikvæð áhrif kórónuveirufaraldursins á fjárhagsstöðu íslenskra sveitarfélaga muni nema rúmum 33 milljörðum á þessu ári. Til að setja þær tölur í samhengi námu heildarútgjöld sveitarfélaga á síðasta ári alls 390 milljörðum króna. Hin neikvæðu áhrif nemi þar af leiðandi um 8,5 prósentum af heildarútgjöldum sveitarfélaganna. Þetta er niðurstaða skýrslu starfshóps um fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem kynnt var í vikunni.
„Ljóst er að Covid-19 faraldurinn hefur haft og mun hafa töluverð áhrif á fjármál sveitarfélaga en áhrifin eru mjög ólík eftir sveitarfélögum og landshlutum. Almennt má segja að áhrif Covid-19 faraldursins séu hlutfallslega mest þar sem umfang ferðaþjónustu er hlutfallslega stærst og þar sem ætla má að útgjöld vegna félagslegrar þjónustu og fjárhagsaðstoðar vegur þyngst,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.
Þannig sé mörgum sveitarfélögum þröngur stakkur sniðinn hvað varðar viðbrögð við ástandinu, eins og það er orðað í skýrslunni. Reyna muni á framlög þeirra sveitarfélaga vegna lögbundinna verkefna, svo sem í velferðar- og skólamálum.
Rekstarniðurstaða versni um tæpa 27 milljarða
Í skýrslunni kemur fram að áætluð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna verði 26,6 milljörðum lakari á árinu heldur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum þeirra. Þá er gert ráð fyrir að fjárfestingar sveitarfélaganna verði um 6,6 milljörðum meiri í ár heldur en upphaflega var gert ráð fyrir. Samanlagt eru frávik frá upphaflegum fjárhagsáætlunum því 33 milljarðar eða um 91 þúsund krónur á hvern íbúa að meðaltali.
Áætlað er að útsvarstekjur sveitarfélaganna muni dragast saman um um það bil níu milljarða. Í upphaflegum fjárhagsáætlunum var gert ráð fyrir að útsvarstekjur ársins myndu nema rúmlega 223 milljörðum króna en samkvæmt þeim gögnum sem nú liggja fyrir áætlar starfshópurinn að útsvarstekjur ársins muni nema 212 milljörðum króna. Útsvarstekjur eru stærsti einstaki tekjustofn sveitarfélaga.
Það er þó mjög misjafnt hversu mikill hallinn er hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig, til að mynda er gert ráð fyrir að tekjur á íbúa verði hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir í alls tólf sveitarfélögum.
Fjármagna hallann að miklu leyti með lánum
Samkvæmt áætlunum sveitarfélaganna sem vísað er í í skýrslunni þá munu sveitarfélögin fjármagna aukinn halla annars vegar með auknum lántökum upp á 23 milljarða og hins vegar með því að ganga á handbært fé upp á rúma tíu milljarða.
Um gerð skýrslunnar segir að gögnum um fjármál sveitarfélaga hafi verið safnað úr ársreikningum þeirra auk þess sem upplýsinga var leitað frá Ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands, og Vinnumálastofnunar. Þá var sveitarfélögum send beiðni um fjármálaupplýsingar úr bókhaldi þeirra frá síðustu mánuðum.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi þann 28. apríl síðastliðinn að beina því til samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga að setja á fót greiningarhóp til meta fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Formaður starfshópsins var dr. Gunnar Haraldsson, hagfræðingur, sem skipaður var án tilnefningar. Í starfshópnum sátu einnig Dan Brynjarsson, sviðsstjóri fjársýslusviðs Akureyrarbæjar og Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar, fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga, Hanna Dóra Hólm Másdóttir fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Kristinn Bjarnason fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og Pétur Berg Matthíasson fyrir forsætisráðuneytið.