Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar styðja það og hvetja til þess að frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icelandair verði samþykkt í óbreyttri mynd. Þetta kemur fram í umsögn um frumvarpið sem samtökin sendu sameiginlega frá sér.
Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk á föstudag og málinu í kjölfarið vísað til fjárlaganefndar. Með frumvarpinu til fjáraukalaga er lögð til heimild handa ráðherra til að veita Icelandair sjálfskuldarábyrgð frá ríkissjóði á lánum vegna tekjufalls félagsins vegna kórónuveirufaraldursins. Gert er ráð fyrir að heildarskuldbinding ríkissjóðs jafngildi allt að 15 milljörðum króna.
Afskipti hins opinbera megi ekki vera of mikil
Í umsögninni er tekið fram að samtökin bæði séu ekki fylgjandi miklum ríkisafskiptum. „Samtökin hafa alltaf verið þeirrar skoðunar að afskipti hins opinbera af atvinnulífinu megi ekki vera of mikil. Tvær hliðar eru á þeim peningi. Annars vegar að laga- og skattaumhverfi megi ekki vera of íþyngjandi fyrir atvinnulífið til að draga ekki um of úr samkeppnishæfni þess. Hins vegar að forðast eigi að beita ívilnunum fyrir einstök fyrirtæki og atvinnugreinar, heldur að skapa almennt gott rekstrarumhverfi,“ segir þar.
Þar segir að nú sé uppi fordæmalaus staða í íslensku efnahagslífi. Kórónuveirufaraldurinn hafi einna mest áhrif á ferðaþjónustu og í samanburði við önnur vestræn ríki séu áhrif ferðaþjónustu á efnahag einna mest hér á landi.
Kerfislega mikilvægt félag
Í umsögn sinni segja samtökin Icelandair vera kerfislega mikilvægt fyrir Ísland að tvennu leyti:. „Annars vegar sem hluti af mikilvægum samgönguinnviðum fyrir Íslendinga til að gefa þeim kost á að ferðast til og frá landinu. Hins vegar flytur enginn fleiri ferðamenn til landsins.“
Ólíklegt sé að erlend flugfélög myndu sinna þessu hlutverki með sama hætti og að mati samtakanna eru því líkur á að fjöldi áfangastaða fækki og flugtíðni lækki, fari svo að Icelandair hyrfi af markaðnum. Þar að auki segja samtökin það skapa fleiri störf að hafa flugfélag með bækistöðvar á landinu.
Samtökin telja það að með því að veita ábyrgð á láni, í stað þess að leggja til lánsfé eða hlutafé, sé áhætta skattgreiðanda af stuðningi við Icelandair lágmörkuð. „Tryggt er að ríkið verði síðast inn og fyrst út, eins og fjárm ála- og efnahagsráðherra hefur orðað það. Sú útfærsla á stuðningnum er því til fyrirmyndar,“ segir um frumvarpið í umsögninni. Samtökin styðja það því bæði að frumvarpið verði klárað óbreytt.
Möguleiki í stöðunni að ríkið eignist hlut í félaginu
Ríkisendurskoðun segir helsta álitamál frumvarpsins vera hvernig tryggingum fyrir lánið ætti að vera háttað. Í umsögn frá Ríkisendurskoðun segir að frumvarpið sé fáort um þetta en „Ijóst má vera að veðhæfi félagsins er orðið þannig að lítið er um hefðbundin veð sem unnt væri að setja til tryggingar láni nema þá að vera aftarlega í veðröð.“
Að mati ríkisendurskoðunar er ósennilegt að þær eignir sem settar verði fram sem trygging fyrir endurheimt samkvæmt frumvarpinu standi undir kröfum, ef allt fer á versta veg í rekstri félagsins. Það sé því ástæða til að velta fyrir sér hvort sviðsmyndir sem stjórnendur Icelandair settu upp séu raunhæfar að mati Ríkisendurskoðunar.
Annar möguleiki í stöðunni væri sá að ríkissjóður eignaðist hlut í félaginu ef gengið yrði á ábyrgðir samkvæmt umsögn Ríkisendurskoðunar. Hreinlega gæti ríkið tekið rekstur félagsins yfir með það fyrir augum að finna síðar mögulega eigendur segir þar enn fremur. Það sé þó pólitíkurinnar að ákveða það: „Þetta eru á hinn bóginn ákvarðanir sem byggjast á stjórnmálalegum forsendum sem umsögn þessi nær ekki til og ríkisendurskoðandi tekur ekki afstöðu til.”