Ríkið gæti komið til móts við fyrirtæki í erfiðri stöðu með því að framlengja launagreiðslur fólks á uppsagnarfresti, þetta segir Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates í samtali við Kjarnann.
Í vor sagði félagið upp um 130 starfsmönnum og nýtti þá uppsagnarúrræði stjórnvalda sem felur í sér að ríkið greiði mestan hluta launa í uppsagnarfresti. Sigþór hafi talið það ábyrgara á sínum tíma að fara strax í uppsagnir í staðinn fyrir að setja starfsfólk á hlutabótaleiðina þegar óvissan um framtíðina var algjör. „Það var öll flugumferð dottin niður og við sáum ekki fram á að það yrði nein flugumferð í bráð. Menn voru jafnvel að tala um margra, margra mánaða stopp,“ segir hann.
Þegar uppsagnarfrestur þessa starfsfólks var að renna út í lok júlí hafði starfsemin tekið við sér, fjöldi véla kom og fór frá Keflavíkurflugvelli á degi hverjum og útlitið var bjart. Því var ráðist í endurráðningar á starfsfólki. „Það var ekkert sem benti til þess að stjórnvöld á þeim tímapunkti myndu taka ákvörðun um að loka landinu eins og nú er að gerast,“ segir Sigþór.
Í nákvæmlega sömu stöðu og í vor
Nú er staðan sú að lítið er á döfinni og starfsfólk margt hvert komið á hlutabótaleiðina. „Við erum allavega að nýta okkur þetta úrræði ríkisstjórnarinnar, við erum ekki að segja upp fólki núna því við erum að vonast til þess að menn snúi við þessari ákvörðun og opni landið með einhverjum hætti. Við mátum stöðuna þannig að menn hlytu að opna landið aftur. Þannig að við erum ekki í neinum uppsögnum, við erum að fara aftur í 50 prósent leiðina,“ segir Sigþór.
Uppsagnir eru auk þessi ekki fýsilegur kostur fyrir fyrirtækið, enda hefur það nú þegar notað þá þrjá mánuði sem boðið er upp á í uppsagnarúrræðinu fyrir starfsfólkið sem áður hafði verið sagt upp. Sigþór væri helst til í að geta nýtt úrræðið áfram en getur það ekki. Hann segist skilja að upphaflega hafi úrræðið veri bundið við þrjá mánuði, en „að sama fyrirtæki lendi aftur í nákvæmlega sömu stöðu, það er svolítið absúrd.“
Hann segir ríkið hæglega geta breytt þessu með því að lengja tímabilið sem uppsagnarúrræðið nær til. „Til þess að mæta þessum fyrirtækjum þá væri bara hægt að lengja þessi úrræði,“ segir Sigþór.