Ekki hafa komið fram „nægilega sterk rök til að réttlæta þá miklu breytingu sem felst í því að seinka klukkunni um eina klukkustund“, segir ríkisstjórn Íslands í tilkynningu, en ítarlegri skoðun á kostum og göllum þess að breyta staðartíma á Íslandi er nú lokið.
Málið hefur verið lengi til umræðu og hefur meðal annars verið lagt fyrir almenning í samráðsgátt stjórnvalda á þeim rúmum tveimur árum sem klukkubreytingin hefur verið til umfjöllunar í stjórnarráðinu.
Rökin fyrir breytingunum þóttu á endanum ekki nægilega sterk til þess að hægt væri að réttlæta breytingarnar.
„Vegur þar þyngst að neikvæð áhrif fækkunar birtustunda á vökutíma og skerðingar birtustunda í lok dags sem dregið gætu úr útivist og hreyfingu eru ekki nægilega vel þekkt, en birtustundum hefði fækkað um 13% á ársgrundvelli með breytingunni,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.
Aðgerðir boðaðar til að vinna gegn misræmi staðartíma og líkamsklukku
Umræðan um breytta klukku spratt ekki síst fram sökum þeirra áhrifa sem misræmi staðartíma og líkamsklukku getur haft í för með sér. Ríkisstjórnin segir mikilvægt að bregðast við þessum áhrifum, þó klukkubreytinguna hafi ekki verið hægt að réttlæta.
Heilbrigðisráðherra hefur þannig verið falið að „ráðast í fræðsluátak um mikilvægi svefns og gera kannanir á svefntíma landsmanna fyrir og eftir átakið í samstarfi við embætti landlæknis.“
Að auki hefur mennta- og menningarmálaráðherra verið „falið að taka saman þau verkefni þar sem upphafi skóladags hefur verið frestað, leggja mat á þau og ráðast í frekari tilraunaverkefni þar sem fylgst verði með svefntíma barna og unglinga fyrir og eftir breytingu til að mæla árangur.“