Endurskoðun siðareglna RÚV hefur staðið yfir síðan á síðasta ári og hefur því ekki verið endurskipað í siðanefnd sem síðast var skipuð haustið 2016 til þriggja ára. Þetta kemur fram í svari Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra við fyrirspurn Kjarnans.
Kjarninn greindi frá því í morgun að lögmaður Samherja hefði lagt fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna „þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum“.
Frétta- og dagskrárgerðarmennirnir sem um ræðir eru þau Aðalsteinn Kjartansson, Freyr Gígja Gunnarsson, Helgi Seljan, Lára Ómarsdóttir, Rakel Þorbergsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Snærós Sindradóttir, Stígur Helgason, Sunna Valgerðardóttir, Þóra Arnórsdóttir og Tryggvi Aðalbjörnsson.
Tvær kvartanir borist sem vísað var frá
Á starfstíma siðanefndarinnar hafa henni borist tvær kvartanir, árin 2017 og 2019. Báðum kvörtunum var vísað frá nefndinni, að því er fram kemur í svari útvarpsstjóra.
„Í ljósi framkominnar kæru til siðanefndar hefur verið óskað eftir tilnefningum í nefndina og að þeim fengnum verður kæran send nefndinni til meðferðar,“ segir enn fremur í svarinu.
Þá kemur fram að siðanefnd RÚV hafi verið skipuð haustið 2016 til þriggja ára í samræmi við siðareglur RÚV. Gunnar Ingi Jóhannsson var þá skipaður formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn voru Guðmundur Heiðar Frímannsson, aðalmaður fyrir hönd Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og Grétar J. Guðmundsson til vara og Sigríður Árnadóttir, aðalmaður fyrir hönd Starfsmannasamstaka RÚV og G. Pétur Matthíasson til vara.