Samkeppniseftirlitið telur mikilvægt að áformuð ríkisábyrgð til Icelandair Group sé afmörkuð eins og kostur er við flugrekstur félagsins, áætlunarflug til og frá landinu. Þetta segir stofnunin varða bæði hagsmuni keppinauta félagsins á fjölbreyttum sviðum flugs, flugtengdrar þjónustu og ferðaþjónustu og hagsmuni viðskiptavina og efnahagslífs af virkri samkeppni á þessum mörkuðum.
Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins til fjárlaganefndar Alþingis um áform um ríkisábyrgð til samstæðunnar. Eftirlitsstofnunin bendir á að það gæti haft skaðleg áhrif í samkeppni í flugafgreiðslu, innanlandsflugi og ferðaþjónustu ef Icelandair Group gæti nýtt sér ríkisaðstoðina til að mæta rekstrarkostnaði annarra þátta samstæðunnar en áætlunarfluginu einu.
Samkeppniseftirlitið bendir á að þrátt fyrir að yfirlýst markmið ríkisaðstoðarinnar sé að ríkisábyrgðin verði beintengd við það tjón sem til er komið vegna áhrifa veirufaraldursins á flugrekstur félagsins, sé engin vísun í skilmálum lánsfjármögnunarinnar til þess að nýting á umræddri ríkisaðstoð sé bundin við flugrekstur félagsins.
„Að mati Samkeppniseftirlitsins er því óljóst að hvaða leyti Icelandair Group muni geta nýtt ríkisaðstoðina til framangreindrar starfsemi sem ekki með beinum hætti felur í sér reglubundið áætlunarflug,“ segir í umsögninni og því bætt við að því sé mikilvægt að hafa í huga að á ýmsum öðrum sviðum sé Icelandair Group í samkeppni „við mun minni keppinauta og ljóst er að ríkisaðstoð af því tagi sem um ræðir hefur skaðleg áhrif á samkeppni og rekstur þessara keppinauta sem ekki njóta sambærilegrar fyrirgreiðslu.“ Á þetta hafa ferðaþjónustur þegar bent í umsögnum sínum til fjárlaganefndar.
Telur vert að skoða að skilyrða ríkisaðstoð við aðskilnað eininga Icelandair Group
Samkeppniseftirlitið segir í umsögn sinni að samhliða ákvörðunum um ríkisaðstoð til handa Icelandair Group taki stjórnvöld „upplýsta ákvörðun um það hvernig þau hyggjast standa vörð um virka samkeppni í flugi til og frá landinu, flugtengdri þjónustu og afleiddum sviðum ferðaþjónustu þar sem fyrirsjáanlegt er að ríkisaðstoðin muni hafa skaðleg áhrif á samkeppni.“
Í þessu ljósi telur Samkeppniseftirlitið sem áður segir nauðsynlegt að tryggja að ríkisábyrgðin verði aðeins nýtt til flugrekstrar og einnig að áhrif ríkisaðstoðar á keppinauta Icelandair verði metin og afstaða tekin til þess hvort ástæða sé til stuðningsaðgerða gagnvart þeim til að „ná fram þeim heildarmarkmiðum sem liggja til grundvallar áformaðri ríkisaðstoð.“
Einnig segir Samkeppniseftirlitið að greina þurfi hvaða aðgerða stjórnvöld geti gripið til í því skyni að draga úr aðgangshindrunum inn á viðkomandi markaði og nefnir eftirlitsstofnunin að til álita gæti komið að skilyrða ríkisaðstoð með einhverjum hætti.
Til dæmis, segir Samkeppniseftirlitið, væri hægt að skoða að skilyrða ríkisaðstoð við það að starfsemi sem ekki eigi að njóta ríkisstuðnings sé klofin frá félaginu eða aðskilin fjárhagslega, eða að skapað verði rými fyrir nýjan keppinaut í áætlunarflugi með framsali afgreiðslutíma.
Áform Play „þýðingarmikil“
Samkeppniseftirlitið segir gríðarlega hagsmuni fyrir íslenskt efnahagslíf og almenning fólgna í því að samkeppni sé til staðar á markaði flugfélaga með bækistöðvar á Íslandi. Það hafi sést bæði þegar Iceland Express og WOW air voru starfandi.
Því meti Samkeppniseftirlitið það sem svo að áform Play um að hefja flugrekstur á Íslandi séu „þýðingarmikil í samkeppnislegu tilliti.“ Stofnunin segir, með hliðsjón af þessu, að mikilvægt sé að ríkisaðstoð til Icelandair Group vinni ekki gegn nýrri samkeppni eins og þeirri sem Play boðar.