Einungis 13 prósent Íslendinga vilja slaka á sóttvarnaraðgerðum bæði innanlands og á landamærunum dagana 13. ágúst til 23. ágúst, samkvæmt nýjum netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Niðurstöður panelsins voru birtar á Vísindavefnum í dag en könnunina framkvæmdu þau Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við HÍ, Magnús Þór Torfason, dósent í viðskiptafræði við HÍ, Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við HÍ, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ.
Úrtak panelsins var valið með slembiaðferð og því er hægt að heimfæra niðurstöðurnar á þjóðina í heild, auk þess sem hægt er að bera saman hvernig niðurstöðurnar hafa þróast yfir tíma.
Alls voru spurningalistar sendir á 500 einstaklinga á hverjum degi þar sem viðhorf þeirra til sóttvarnaraðgerða sem í gildi eru innanlands og á landamærunum voru könnuð.
Ef tímabilið í heild er skoðað kemur í ljós að um 13 prósent vilja vægari aðgerðir innanlands, á móti 87 prósent sem vilja annað hvort óbreyttar eða harðari aðgerðir. Þar af vildu 63 prósent aðspurðra halda aðgerðum í óbreyttri mynd.
Svipað var upp á teningnum þegar spurt var um viðhorf til aðgerða á landamærunum, en 13 prósent vildu vægari aðgerðir, á meðan 34 prósent vildu harðari aðgerðir og rúmlega helmingur vildi óbreyttar aðgerðir.
Ef litið er á þróun yfir tíma má sjá litla breytingu á viðhorfum til aðgerða innanlands í ágústmánuði. Þeir sem vilja vægari aðgerðir eru á bilinu 7 til 19 prósent, harðari aðgerðir vilja 18 til 35 prósent, en stærsti hlutinn, 49 til 71 prósent, er sáttur við núverandi aðgerðir aðgerðir.
Viðhorf til aðgerða á landamærunum hefur hins vegar tekið miklum breytingum á tímabilinu, en í byrjun þess vildu 55 prósent aðspurðra herða aðgerðir. Þetta hlutfall var komið niður í 18 prósent undir lok mánaðarins, á meðan hlutfall þeirra sem vilja slaka á aðgerðum á landamærunum jókst úr 4 prósent upp í 19 prósent á tímabilinu.