Vinstri græn bættu við sig 1,7 prósentustigum í fylgi í ágúst og mælast nú með 12,6 prósent fylgi, samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn dalar lítillega á milli mánaða og nýtur stuðnings 22,8 prósent kjósenda og Framsóknarflokkurinn stendur nánast í stað með 7,9 prósent fylgi.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja er nú 43,3 prósent, sem er aðeins meira en þeir höfðu í lok júlí, þegar 41,7 prósent landsmanna sögðu að þeir myndu kjósa þá. Allir þrír hafa hins vegar tapað fylgi frá haustinu 2017, þegar síðast var kosið, en þá fengu Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samtals 52,9 prósent atkvæða.
Næstu kosningar fara fram eftir rúmt ár, þann 25. september 2021.
Miðflokkurinn lækkar
Miðflokkurinn lækkar lítillega á milli mánaða og mælist nú með 9,9 prósent fylgi, sem er undir kjörfylgi hans, en flokkurinn fékk 10,9 prósent síðast þegar kosið var til þings.
Miðað við þessa stöðu er ekki ósennilegt að 7,5 prósent atkvæða myndu verða greidd flokkum sem næðu ekki inn á þing ef kosið yrði í dag, og þar með falla niður dauð.
Þrír yfir kjörfylgi
Samfylkingin mælist með nánast sama fylgi og hún var með fyrir mánuði, eða 14,7 prósent. Hún er, líkt og undanfarna mánuði, næst stærsti flokkur landsins á eftir Sjálfstæðisflokki samkvæmt könnunum Gallup.
Píratar koma þar á eftir með 13,7 prósent fylgi og 10,6 prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa Viðreisn ef kosið yrði í dag.
Allir þessir þrír flokkar eru að mælast með meira fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum og þannig hefur staðan verið meira og minna á þessu kjörtímabili. Samanlagt fylgi þeirra nú er 39 prósent en í kosningunum 2017 fengu Samfylkingin, Píratar og Viðreisn, sem starfa meðal annars saman í borgarstjórn Reykjavíkur með Vinstri grænum, 28 prósent fylgi.