Meirihluti velferðarnefndar leggur til að gildistími hlutabótaleiðarinnar verði framlengdur út þetta ár, í stað þess að hann gildi út október líkt og frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, gerir ráð fyrir.
Þetta kemur fram í áliti meirihlutans á málinu sem birt var á vef Alþingis í gærkvöldi.
Auk þess leggur meiri hlutinn áherslu á að fjármögnun úrræðisins verði tryggð í fjáraukalögum síðar á þessu ári. „Í þessu samhengi telur meiri hlutinn því ekkert til fyrirstöðu að hlutabótaleiðin verði nýtt aftur fyrir sama einstakling sem hefur verið endurráðinn í fullt starf, að því gefnu að skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins séu uppfyllt, þ.m.t. að um sé að ræða lækkað starfshlutfall. Hins vegar getur einstaklingur ekki nýtt sér hlutabótaleiðina ef hann er endurráðinn í 50 prósent starfshlutfall enda er þá ekki um að ræða tímabundna lækkun á starfshlutfalli.“
Mikill samdráttur á nýtingu
Hlutabótaleiðin er það úrræði stjórnvalda sem gripið hefur verið til vegna yfirstandandi heimsfaraldurs sem nýst hefur hvað best. Tilgangur hennar er að viðhalda ráðningarsambandi milli starfsmanns og fyrirtækis þegar rekstrargrundvöllur fyrirtækisins brestur tímabundið. Auk þess tryggir hún sjálfstætt starfandi einstaklingum með eigin rekstur í félagi svigrúm til þess að draga úr rekstri án þess að verða fyrir óviðráðanlegu tekjutapi vegna faraldursins.
Þegar mest var, í apríl, nýttu 33.637 manns hlutabótaleiðina. Í júlí var sú tala komin niður í 3.862 sem leiddi af sér 300 milljóna króna kostnað, samkvæmt minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra dagsett 14. ágúst sem lagt var fyrir ríkisstjórn fyrr í mánuðinum. Þar segir að búast megi við því að tæplega helmingur þeirra sem nýttu úrræðið í júlí hafi gert það í ágúst. Kostnaður við að framlengja leiðina út október átti að vera tveir milljarðar króna, en hún kostaði ríkissjóð alls 18 milljarða króna frá mars og út júlímánuð.
Sanngirnisrök
Í umsögn meirihluta velferðarnefndar, sem samanstendur af þingmönnum stjórnarflokkanna í nefndinni, segir að þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr ásókn í úrræðið sé enn nokkur fjöldi launamanna sem fær hluta framfærslu sinnar vegna úrræðisins og heldur ráðningarsambandi. „Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að það geti reynst torvelt að reka saman til langs tíma tvö mismunandi kerfi, þ.e. hefðbundið atvinnuleysistryggingakerfi og hlutabætur, og bent á það misvægi sem gæti skapast milli réttinda þeirra sem væru annars vegar á hlutabótum og þeirra sem væru hins vegar atvinnuleitendur og á atvinnuleysisbótum. Í ljósi þess telur meiri hlutinn því ekki skynsamlegt að lengja gildistíma úrræðisins til langframa.“
Sanngirnisrök hnígi hins vegar að því að lengja gildistímann meira en í tvo mánuði. Þar komi til að aðdragandinn að því að afnema úrræðið endanlega hafi verið fullstuttur, og það að framlengja í tvo mánuði muni ekki breyta miklu í stöðu þeirra fyrirtækja sem séu að skoða möguleika sína á að halda áfram ráðningarsambandi.
Vildi lengja úrræðið til júní 2021
Þeir fulltrúar stjórnarandstöðu í velferðarnefnd sem hafa skilað inn minnihlutaálitum um málið vildu lengja gildistíma leiðarinnar umfram það sem meirihlutinn lagði til. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, vildi framlengja hann út febrúar 2021, eða um sex mánuði.
Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, vildi ganga enn lengra og lagði til að hlutabótaleiðin yrði framlengd til 1. júní 2021. Í áliti hennar segir að hlutabótaleiðin sé vel heppnuð aðgerð sem fyrst og fremst gekk út á að viðhalda ráðningarsamningi þegar atvinnuleysi jókst mikið. „Stjórnvöld tóku því miður þá ákvörðun síðastliðið vor að beina fyrirtækjum frekar í það úrræði að segja upp fólki með stuðningi stjórnvalda í uppsagnarfresti en að liðka til fyrir fyrirtæki að viðhalda ráðningarsambandi. 2. minni hluti varaði mjög við þeirri ákvörðun enda hefur komið í ljós að það voru dýr mistök. Fækkaði einstaklingum í hlutabótaúrræði úr rúmum 30.000 í tæplega 3.000 á tímabilinu.“