„Ríkisstjórnin er eina ríkisstjórnin í Evrópu og bara í heiminum sem hefur beitt gjaldeyrishöftum. Það voru sett gjaldeyrishöft á lífeyrissjóðina,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, en þar ræddu hún og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks hin ýmsu mál, meðal annars nýsamþykkta ríkisábyrgð til handa Icelandair Group.
Varðandi hana og þunga stöðu Icelandair sagði Þorgerður Katrín að ríkisstjórnin hefði að sínu mati átt að „ganga hreinna til verks“, en ekki skilja bankana eftir með „þungar og erfiðar ákvarðanir“ um að sölutryggja hlutafjárútboð Icelandair Group.
Hún vísaði til þess að danska og sænska ríkið hefðu beina aðkomu að málefnum SAS, m.a. með því að þrýsta á að skuldum yrði breytt í hlutafé, en sagði þó ekki beinum orðum að hún hefði vildi sjá íslenska ríkið stíga inn í rekstur Icelandair sem hluthafi.
Þorgerður Katrín sagði að í hlutafjárútboði Icelandair væri mikill þrýstingur á að félagslegir sjóðir launþega tækju á sig mikla áhættu, þeir væru fastir með sitt fjármagn innanlands og það væri áhætta fyrir lífeyrisþega framtíðarinnar. Hún sagði að sér þætti réttara að það væri á endanum ríkisvaldið sem bæri ábyrgðina, fremur en lífeyrisþegar.
„Ef það er ykkar tillaga að ríkið bara kaupi hlutafé í Icelandair þá þurfa menn að segja það líka, og tala hreint út,“ sagði Bjarni við Þorgerði í þættinum, en nokkur hiti hljóp í samtal þeirra.
Stjórnendur lífeyrissjóða „ekki að standa sig í vinnunni“ ef þeir láta undan þrýstingi
Bjarni sagði nálgun Þorgerðar á þetta ekki boðlega og að margt væri rangt í málflutningi hennar. „Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin enga aðkomu að því hvort bankar ákveði að sölutryggja þetta og í öðru lagi eru engin gjaldeyrishöft í gangi,“ sagði Bjarni, en Þorgerður Katrín vísaði með orðum sínum um gjaldeyrishöft til þess samkomulags sem er í gildi á milli Seðlabankans og íslensku lífeyrissjóðanna um að hinir síðarnefndu kaupi tímabundið ekki gjaldeyri til erlendra fjárfestinga.
Kristján Kristjánsson þáttarstjórnandi spurði Bjarna hvort það væri þó ekki augljóst að þrýstingur væri á lífeyrissjóðina um að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group síðar í mánuðinum. Bjarni neitaði því ekki, en sagði lagaumhverfið varðandi fjárfestingu lífeyrissjóða alveg skýrt. Þeim er ætlað að fjárfesta með hagsmuni sjóðfélaga í forgrunni.
„Ef að menn láta undan slíkum þrýstingi þegar gögnin segja mönnum að gera eitthvað annað, þá eru menn ekki að standa sig í vinnunni,“ sagði fjármálaráðherra.
Bjarni telur að ríkisstjórnin hafi gert hárrétt með því að segja við Icelandair að þeirra fjárhagsvandi væri þeirra fjárhagsvandi, ekki ríkisins, og félagið hefði „fyrstu skylduna til að bjarga sér á sundi“.
Ríkisstjórnin væri síðan núna að veita vilyrði um tryggða lánalínu, ef að svo illa færi að áætlanir Icelandair myndu ekki standast. Þetta hafi verið gert með þessum hætti til þess að takmarka áhættu ríkisins.
Þorgerður Katrín sagði að það væri beint og óbeint verið að þrýsta lífeyrissjóðunum til þess að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair. „Þeir hafa lítið um aðra kosti að velja en að vera hér innanlands,“ sagði Þorgerður Katrín og lagði áherslu á að það hefði að undirlagi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans að sjóðirnir hefðu verið beðnir um að halda að sér höndum í erlendri fjárfestingu í upphafi kórónuveirufaraldursins.
Icelandair þurfi að teikna upp nýja áætlun ef útboð gangi ekki upp
Í lok viðtalsins spurði þáttarstjórnandi Bjarna hvað myndi gerast ef ekki næðist að safna fjármagni í væntu hlutafjárútboði Icelandair. „Þá verður félagið að svara því hvað það ætlar að gera,“ sagði Bjarni.
„Ef að þeirra eigin áætlanir [...] ganga ekki upp verða þeir að gera sínar nýju áætlanir og ef ég á að svara úr sæti mínu myndu ég halda að þeir þyrftu að draga eitthvað úr framtíðaráformum sínum og láta á það reyna að leggja upp með nýja áætlun með minni umsvifum,“ sagði Bjarni.