Rafmagnsneysla flestra aðildarríkja Evrópusambandsins hefur verið töluvert undir meðaltali síðustu ára síðan í mars síðastliðnum. Þetta kemur fram í nýútgefnum tölum hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.
Samkvæmt tilkynningu Eurostat hefur lækkunin verið mest á meðal aðildarríkja sem reiða sig meira á ferðamannaiðnaðinn, en hún nam meiri en tíu prósentum í Grikklandi, Spáni, Króatíu, Kýpur, Póllandi og Slóveníu.
Mesta breytingin var á Kýpur, þar sem raforkunotkun milli mars og júní dróst saman um 14 prósent. Minnstu breytinguna má hins vegar sjá í Norður-Evrópu, en rafmagnsnotkun í Eistlandi, Svíþjóð og Danmörku á mánuðunum mars til júní er nánast á pari við sama tímabil í fyrra.
Heildarraforkunotkun allra aðildarríkja sambandins hefur svo dregist saman um tæpar 74 þúsund gígavattsstundir í vor og byrjun sumars, en það er um níu prósentum minna en notað var í fyrra.