Jacob Schram, forstjóri norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian, mun funda með samgönguráðherra Noregs, Knut Arild Hareide, þann 21. september um frekari ríkisstuðning við félagið. Ríkisstjórn Noregs hefur sagst vera tilbúin í að veita stuðning eftir þörfum til að tryggja nægilegt flugframboð.
Þetta kom fram í frétt norska miðilsins E24 sem birtist í gær. Samkvæmt henni bauð Schram til fundar við Hareide síðastliðinn 28. ágúst, sama dag og annað ársfjórðungsuppgjör flugfélagsins var gefið út.
Norwegian hefur verið í nánu sambandi við norsku ríkisstjórnina á síðustu mánuðum, en hún veitti flugfélaginu ríkisábyrgð á lánum að andvirði þriggja milljarða norskra króna, sem samsvarar um 46 milljörðum íslenskra króna, í vor. Þessi ábyrgðarveiting var hluti af björgunarpakka norsku ríkisstjórnarinnar til flugreksturs í landinu, en flugfélögunum SAS og Widerøe var einnig veitt ríkisábyrgð á lánum þeirra.
Þann 25. júní átti Schram einnig fund með iðnaðarráðherra Noregs, Iselin Nybø. Fjármálastjóri félagsins, Geir Karlsen, ýjaði svo að möguleikanum á frekari stuðningi á ráðstefnu DNB fyrir viku síðan, en þar sagði hann að Norwegian ætti í samtali við norsku ríkisstjórnina vegna nýs hugsanlegs stuðnings.
Stuðningur eftir þörfum
Aðstoðarráðherra iðnaðarráðuneytis Noregs, Lucie Katrine Sunde-Eidem, sagði í viðtali við E24 að ríkisstjórnin væri að meta ástandið. „Hvort sem það leiðir til fleiri aðgerða fyrir flugfélögin eða aðra hluti hagkerfisins munum við finna út eftir þörfum.“
Sunde-Eidem bætir þó við að rekstrarumhverfi flugfélaganna sé mjög krefjandi núna og að margs konar inngrip séu möguleg hjá hinu opinbera.
„Ríkið íhugar meðal annars breytingar á leyfisreglum, minnkun opinberra gjalda og svo höfum við stillt upp áætlun fyrir ríkisábyrgð sem er í boði fyrir flugfélögin. Slík ábyrgð er töluverð, auk þess sem hið opinbera sér til þess að áhættan af tapi flugfélaganna verði ekki of mikil,“ segir aðstoðarráðherrann.
Til viðbótar segir Sunde-Eidem að hið opinbera styrki innanlandsflugleiðir frá Norwegian, SAS og Widerøe til þess að halda uppi lágmarksframboði af flugferðum innan landsins.