Áform Minjastofnunar um að friðlýsingu við Þerneyjarsund, í Þerney og í Álfsnesi geta „haft veruleg áhrif á lagningu Sundabrautar“. Þetta kemur fram í bréfi sem Vegagerðin sendi til Minjastofnunar Íslands 1. september síðastliðinn og Kjarninn hefur undir höndum.
Ástæða bréfasendingarinnar eru áform Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu við Þerney og Álfsnes, en á meðal þess svæðis sem stendur til að friðlýsa er ætlað vegstæði Sundabrautar. Gert er ráð fyrir að síðari áfangi Sundabrautar liggi frá Gufunesi, um Geldingarnes, yfir Leiruvog, Gunnunes, Álfsnes og Kollafjörð.
Með öðrum orðum: Ef af friðlýsingunni verður þá mun ekki vera hægt að leggja Sundabraut.
Í bréfi Vegagerðarinnar segir að hún hefði kosið að Minjastofnun hefði litið á Vegagerðina sem hagsmunaaðila varðandi friðlýsingaráformin og óskað eftir formlegri umsögn áður en ákvörðun yrði tekin. „Vegagerðin gerir því athugasemdir við áformin og óskar eftir fundi með fulltrúum Minjastofnunar áður en lengra er haldið.“
Sundabraut verið á dagskrá í áratugi
Áratugir eru síðan að Reykjavíkurborg og íslenska ríkið settu fyrst fram áform um að leggja Sundabraut. Vegurinn hefur raunar verið hluti af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá árinu 1985 og inni á vegaskrá sem fyrirhugaður þjóðvegur frá 1995.
Í samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034, sem samþykkt var á Alþingi í lok júní síðastliðins, er lagning Sundabrautar inni. Samhliða voru samþykkt lög sem heimil að Vegagerðin geti gert samning við einkaaðila um fjármögnun, framkvæmd, viðhald og rekstur Sundabrautar, enda er framkvæmdin ekki fjármögnuð á samgönguáætlun.
Samþykkt ofangreindra laga og samgönguáætlunar var hluti af stærra samkomulagi um að flýta samgönguframkvæmdum, meðal annars á forsendum svokallaðs samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem fjallar um hvernig kostnaðarskipting við stórframkvæmdir þar verður á milli ríkis og sveitarfélaganna sem mynda svæðið. Í þeim sáttmála er þó ekki talað ákveðið um Sundabraut þurfi að verða að veruleika heldur að við endanlega útfærslu framkvæmda verði „sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.“
Ekki hægt að velja verkefni eins og upp úr konfektkassa
Lykilbreyta í að framkvæma efnisþætti þess sáttmála var samþykkt laga sem heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu sem verður í sameign ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, en slíkt hlutafélag á til dæmis að fjármagna lagningu Borgarlínu.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tjáði sig um samgönguúrbætur á höfuðborgarsvæðinu í viðtali við Morgunblaðið í byrjun þessa mánaðar, þar sem Borgarlína og lagning Sundabrautar eru í aðalhlutverki.
Þar var hann spurður hvort að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins myndi falla úr gildi ef Reykjavíkurborg myndi ekki standa við sinn hluta um lagningu Sundabrautar. Bjarni svaraði því til að það væri of mikið sagt að slíkar vanefndir væru þegar fram komnar. „En punkturinn er réttur. Það getur ekki verið þannig að menn velji sér einstök verkefni eins og upp úr konfektkassa en hirði ekki um önnur[...]Þessu félagi verður komið á fót á næstu vikum og þá færist umræðan inn í þetta félag, þó hún lifi auðvitað áfram inni í þinginu. En ef það strandar á einstökum verkefnum í sáttmálanum, nú þá er hann strand.“