Þegar nýir einstaklingar taka sæti í stjórnum íslenskra lífeyrissjóða er hæfi þeirra til þess að gegna stjórnarstörfunum alltaf metið sérstaklega af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (FME). Misjafnt er hvernig það hæfismat fer fram og helgast það meðal annars af stærð og umfangi sjóða hvort stjórnarmenn eru látnir undirgangast munnlegt hæfismat.
„Ríkari kröfur“ eru gerðar til þekkingar stjórnarmanna í stærri sjóðum en þeirra sem smærri eru, samkvæmt svörum FME við fyrirspurn Kjarnans um framkvæmd hæfismatsins.
Það sem af er ári hefur 21 nýr stjórnarmaður tekið sæti hjá íslenskum lífeyrissjóðum, en einungis sjö þeirra hafa verið teknir í munnlegt hæfismat. Aðrar leiðir hafa verið notaðar til þess að meta hæfi tíu og hæfismat fjögurra til viðbótar er í vinnslu þessa dagana, samkvæmt svari FME.
„Stjórnarmenn senda inn viðamiklar upplýsingar, þ.á m. um menntun, þekkingu og reynslu þeirra, auk ítarlegs rökstuðnings um hæfi þeirra til tiltekinnar stjórnarsetu. Munnlegt hæfismat er einungis einn þáttur til að meta þekkingu viðkomandi. Ef upp koma efasemdir um hæfi viðkomandi stjórnarmanna eftir yfirferð á innsendum gögnum er viðkomandi ávallt boðaður í viðtal þar sem þekking hans er könnuð,“ segir í svari FME.
Kjarninn spurði hvað réði því hverjir væru teknir í munnlegt viðtal og hverjir ekki og fékk þau svör frá FME að litið væri til reglna um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja.
Samkvæmt þeim reglum á FME sjálft að meta hvort stjórnarmenn eigi að gangast undir munnlegt mat. Við það mat skal, samkvæmt reglunum, meðal annars horft til tegundar, stærðar og umfangs rekstursins og þess hvort vafi sé á að viðkomandi uppfylli skilyrði laga um fjármálafyrirtæki, um nægilega þekkingu og reynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.
FME segist í svari sínu ávallt hafa boðað stjórnarmenn ákveðinna eftirlitsskyldra aðila til viðtals, en með hliðsjón af forgangsröðun bankans við úthlutun fjármuna hefur við mat á hvaða aðilar eru ávallt boðaðir til viðtals meðal annars verið litið til stærðar og umfangs þeirra og að „gerðar [séu] ríkari kröfur til þekkingar eftir því sem stærð og umfang reksturs eftirlitsskyldra aðila er meiri.“
„Helgast það viðmið af ýmsum sjónarmiðum m.a. ríkri ábyrgð stjórnarmanna, mögulega fleiri og/eða flóknari verkefnum eftir stærð og umfangi og hugsanleg áhrif eftirlitskylds aðila á fjármálastöðugleika,“ segir í svari FME.