Opinbera hlutafélagið Matís vinnur nú að því að endurskoða heildarstefnu sína í mannauðsmálum og hefur þegar tekið út ákveðinn hluta mannauðsstefnunnar, eftir að ábending barst um að ankannalegt væri að þar væri sérstaklega tekið fram að mikilvægt væri að starfsmenn „töluðu ávallt vel um vinnustað sinn“, bæði utan hans og innan.
Karl Th. Birgisson ritstjóri Herðubreiðar skrifaði um þetta í upphafi mánaðar. Hann velti því fyrir sér hvernig „svona sovézkur sjálfsstyrkingartexti“ rataði inn í mannauðsstefnu opinbers fyrirtækis, eða raunar hvaða fyrirtækis sem er. Karl nefndi þó ekki fyrirtækið sjálft í umfjöllun sinni.
Kjarninn spurði Hróar Hugosson mannauðsstjóra Matís út í þetta mál og hvort rétt væri að álykta að með þessu orðalagi í mannauðsstefnunni væri ætlast til þess að starfsmenn Matís töluðu alltaf jákvætt um vinnustaðinn að öllu leyti, við allar aðstæður.
„Arfur annarra tíma“
Hróar sagði í svari sínu við fyrirspurn blaðamanns að stefnan hafi verið samin fyrir margt löngu, hún væri „arfur annarra tíma“ og greinilegt væri að hlutar hennar ættu ekki við. Við því væri verið að bregðast.
„Eftir þessa góðu ábendingu/áminningu sem við fengum um daginn er hún í endurskoðun. Við erum nú búin að taka út þennan tiltekna hluta en tökum okkur aðeins lengri tíma til að skoða heildarstefnuna,“ segir Hróar í svari sínu við fyrirspurn Kjarnans.
Á vef Matís er nú búið að uppfæra þennan tiltekna hluta mannauðsstefnunnar, en hún var enn óbreytt á fimmtudagskvöld, þegar Kjarninn leit yfir hana.
Matís er opinbert hlutafélag sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Það varð til árið 2007 með sameiningu þriggja ríkisstofnana sem unnið höfðu að matvælarannsóknum og þróun í matvælaiðnaði; Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar.