„Við erum föst í viðjum vanans og erum of hrædd við að gera drastískar breytingar, sama hvort við horfum inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða stjórnkerfið,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson í samtali við Kjarnann nýlega og bætti við að hann teldi skipulagið á vinnumarkaði ekki ákjósanlegt heldur, það væri kostnaðarsamt og byggi til sóun í kerfinu.
Hann sagði að heilt yfir hefði Íslendingum sem þjóð mistekist að ná fram hagkvæmni í því sem verið væri að gera og að það væri að reynast okkur þungt að breyta stórum skipulagsheildum í samfélaginu og færa þær til nútímahorfs.
„Allt er breytt í heiminum á undanförnum 20 árum, en þessar skipulagsheildir, þessar stoðir samfélagsins, þær eru mjög tregbreytanlegar og ég hygg að þetta sé ein af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum og áratugum,“ sagði Halldór Benjamín.
Hann bætti við að oft væru það persónulegir hagsmunir þeirra sem væru við stjórnvölinn hverju sinni sem ráði för og nefndi til dæmis tregðu við sameiningu sveitarfélaga sem dæmi um þetta.
„Þrír sveitarstjórar sem hittast að ræða sameiningu, sjá að þetta er bara stólaleikur þar sem einn situr eftir. Hver ætlar að fá stólinn? En við eigum að vera stærri en svo og við eigum að gera meiri kröfur til sjálfra okkar en svo að þetta sé ákvörðunarþátturinn sem hefur úrslitaáhrif. Í frumkvæði er falið mikið vald,“ sagði Halldór Benjamín.
Nýsköpun verði drifkrafturinn næstu ár
Í viðtalinu sagði hann ljóst að nýsköpun hverskonar yrði drifkrafturinn í atvinnulífinu á næstu árum, út úr COVID-kreppunni, en bætti við að ekki væri hægt að taka stjórnvaldsákvarðanir um að nýsköpunarverkefni yrðu til og sköpuðu störf á undraskjótan máta.
Hann hvatti stjórnvöld til að ganga lengra með þá nýsköpun í opinberri þjónustu sem hefur verið í gangi hjá Stafrænu Íslandi, verkefnastofu innan fjármálaráðuneytisins, á umliðnum misserum.
„Ég hef látið þau skilaboð ganga til stjórnmálamanna, sama hvar í flokk þau eru, tífaldið framlög í þetta, eða tuttugufaldið þau. Þarna er þvílík skilvirkniaukning og sparnaður fyrir opinbera kerfið,“ sagði Halldór Benjamín.