Skógareldarnir sem loga á vesturströnd Bandaríkjanna hafa áhrif á daglegt líf tuga milljóna manna. Þeir hafa ekki aðeins skilið eftir sig slóð gríðarlegrar eyðileggingar heldur hafa þeir kostað að minnsta kosti átján manns lífið í ríkjunum þremur þar sem þeir loga; Oregon, Washingtonn og Kaliforníu. Samanlagt hefur brunnið landsvæði í ríkjunum þremur sem jafnast á við stærð New Jersey. Einn af hverjum tíu íbúum Oregon-ríkis hefur þurft eða er undir það búinn að flýja heimili sitt, svo dæmi sé tekið.
Að segja að eldarnir séu fordæmalausir virðist máttlaus lýsing – eftir allt sem á undan er gengið meðal jarðarbúa síðustu mánuði. En það eru þeir engu að síður: Fordæmalausir. Þeir eru það sem kallað er „samsettar hamfarir“ þar sem margir öfgafullir og hættulegir atburðir eru að eiga sér stað samtímis á mörgum stöðum.
Sérfræðingar í loftslagsmálum hafa varað við slíkum voðaatburðum vegna áhrifa mannsins á breytt loftslag jarðar. Þeir höfðu þó fæstir getað ímyndað sér að slíkar hamfarir myndu eiga sér stað árið 2020. Í varúðarorðum sínum töldu þeir slíkt geta gerst eftir áratugi, ef ekki tækist að minnka magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Og nú logar um alla vesturströnd Bandaríkjanna. Fyrir umfanginu finnast engin fordæmi í mannkynssögunni.
Til að skógareldar breiðist jafn hratt út og raunin hefur orðið í Bandaríkjunum þetta haustið þurfa ákveðnar aðstæður að vera fyrir hendi. Hár lofthiti í töluverðan tíma og heitir og þurrir vindar að blása. Eldarnir sjálfir hafa svo áhrif á veðurfarið staðbundið. Til verða eldstormar og hringiður heits lofts sem hraða enn frekar útbreiðslunni.
Í dag, laugardag, hefur vinda lægt og slökkviliðsmenn eiga auðveldara með að sinna slökkvistörfum en áfram logar glatt og kröftuglega á mörg hundruð stöðum og sumir eldarnir eru risavaxnir.
Í gær var loftmengunin í borgunum Portland og San Francisco meiri en víðast hvar annars staðar í heiminum. Hún var meiri en í mörgum borgum Indlands og Kína.
Rannsóknir hafa síðustu ár sýnt að veðurfarið á vesturströnd Bandaríkjanna hefur breyst. Í nýrri rannsókn sem birt var í ágúst, rétt um það leyti sem fyrstu gróðureldarnir voru að kvikna, kom fram að mjög heitum haustdögum hefur fjölgað um helming í Kaliforníu frá því á níunda áratug síðustu aldar.
„Ég get ekki sagt að þetta hafi verið óviðbúið en við erum mörg hver orðlaus yfir hraðanum,“ hefur Washington Post eftir Eric Knapp, vistfræðingi við bandarísku skógastofnunina í Kaliforníu. Kraftarnir sem mynduðust í eldunum eru líka ógurlegir. Á gervitunglamyndum má sjá að í þeim mynduðust mikil þrumuveður í þéttum reyk- og öskuskýjum sem náðu yfir sextán kílómetra upp í loftið. „Við áttum aldrei von á því að svona margir staðir myndu brenna á sama tíma og með sama krafti og þeir gerðu,“ segir Dana Skelly sem starfar hjá skógarstofnuninni í Portland.
Mikill eldsmatur
Skógareldar eru árlegir í ríkjunum þremur. Þeir eru líka oft umfangsmiklir og því miður einnig oft mannskæðir. En nú eru þeir útbreiddari og skógsvæði sem höfðu ekki jafnað sig eftir mikla elda fyrir nokkrum árum fuðruðu upp er eldtungurnar læstu sig í hálfdauð og dauð tré.
„Ég held að það sé óhætt að segja að þessir eldar eru fordæmalausir vegna hraðans sem þeir fara á,“ segir Knapp. „Við höfum aldrei séð svo marga elda fara um svo stórt landsvæði á svona stuttum tíma.“