„Mér finnst áhugavert að heyra Eyþór [Arnalds] tala hérna um Sjálfstæðisflokkinn sem stærsta flokkinn og dásama hann mikið þegar að Eyþór hefur ennþá ekki komið hreint fram varðandi tengsl sín við Samherja og af hverju hann þáði fé frá fyrirtæki sem greiddi öðrum stjórnmálamönnum víða um heim fé,“ sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs og fulltrúi Pírata í borgarstjórn, í umræðum í Silfrinu á RÚV í morgun. Þetta sagði hún í umræðu um niðurstöður skoðanakannana á fylgi flokka í borginni. Vísaði hún þar í kaup Eyþórs, oddvita Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, á hlut félags í eigu Samherja í Morgunblaðinu sem og meintar mútugreiðslur Samherja til stjórnmálamanna í Namibíu sem nú eru til rannsóknar.
„Það er svolítið magnað að framkoma Samherja gagnvart samfélaginu gegn fjölmiðlum og til dæmis Seðlabankanum, er óhugnanleg,“ hélt Sigurborg áfram. „Það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins að oddvitinn skuli komast upp með það að koma ekki hreint fram. Það sýnir okkur að það er ekki mikið siðferði í flokknum. Það er enginn staður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í því samfélagi sem við viljum búa í.“
Eyþór sagði að orð Sigurborgar lýstu ákveðinni „yfirlýsingagleði“ og „útilokunastefnu“. Hann sagði eignarhlut sinn í Morgunblaðinu víða skráðan, „ekki bara hjá ríkisskattstjóra, fjölmiðlanefnd og náttúrlega í hagsmunaskrá borgarinnar og víðar. Þannig að þetta er bara gömul plata. Þegar það er óþægilegt að tala málefnalega þá fara menn oft í þennan ham. [...] Skítkast er aldrei mjög góð pólitík. Ég vil nefna það en takk fyrir að draga okkur aftur niður,“ sagði Eyþór.
„Staðreyndirnar tala sínu máli,“ svaraði Sigurborg.
Stundin hefur greint frá því að Eyþór hafi keypt hlut sinn í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, með kúluláni, sem var upphaflega 225 milljónir króna, frá félagi í eigu Samherja. Þá hefur einnig komið fram í Stundinni að Samherji hafi afskrifað stóran hluta lánsins sem fyrirtækið veitti Eyþóri fyrir kaupunum.