Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur að nauðsynlegt sé að endurskoða margt innan vébanda Alþýðusambands Íslands (ASÍ). „Eigum við að vera með Alþýðusamband sem virkar eins og stjórnmálin þannig að við komum okkur saman um lægsta samnefnarann svo allir séu sáttir eða eigum við að virkja okkur og vera öflugri sem talsmenn okkar félaga og vera beittari út á við?“ spyr hann.
Þetta kom fram í ítarlegu viðtali við Kjarnann í vikunni.
Hann segir jafnframt að hann sé ekki með fullmótaðar hugmyndir hvernig leysa eigi þetta mál en hann vill til dæmis í dag sjá ákveðna formgerðarbreytingu á ASÍ. Hann telur að það muni gera ASÍ að öflugri heildarsamtökum en „samt ekki detta í þá gryfju að geta aldrei verið sammála um neitt nema vera búin að þynna það út“.
Þurfa að nýta styrkleika sína
„Við þurfum einnig að sýna styrkleika okkar og þessar sterku raddir – því það er svo mikið hjarta í þessari nýju verkalýðshreyfingu. Við endurheimtum þennan neista sem hvarf og ég er samt svo hræddur um að þessi neisti og þessi kraftur nái ekki að koma almennilega fram nema fólk fái að blómstra – alveg sama hvar það er,“ segir hann.
Hann nefnir Icelandair-málið sem dæmi um það hvernig verkalýðshreyfingin geti staðið vel saman. „Hreyfingin er auðvitað mjög öflug og mun verða enn öflugri. Það er mótlætið sem hvetur okkur svo oft áfram og þjappar okkur saman. Þannig virkar hreyfingin.“ Hann segir að þó sé mikilvægt að fólk geti tjáð tilfinningar sínar og skoðanir. „Þá færðu líka meiri tengingu.“
SA hefur „rúllað upp lobbíisma á Íslandi“
Ragnar Þór segir að hann sé enn að vinna að því að gera breytingar innan frá í hreyfingunni. Hans staður sé þó ekki innan miðstjórnar ASÍ en hann sagði sig úr stjórninni í apríl síðastliðnum. Ragnar Þór tekur það sérstaklega fram að ekki sé um að ræða klofning í hreyfingunni. „Mér finnst það vera vettvangur sem hentar mér persónulega ekki. Mér finnst hann draga úr mér orku. Hitt er annað mál að ég held að við þurfum að endurskipuleggja okkur.“
Endurskoðun er hér lykilhugtak í huga Ragnars Þórs. „Við búum ekki til kerfi sem eru eilíf, þau eru alltaf í endurskoðun og ættu að vera það. Þótt eitthvað virki í dag þá er ekki víst að það geri það eftir fimm ár.“
Þá telur hann að Samtök atvinnulífsins hafi „rúllað upp lobbíisma á Íslandi“. Hagsmunaöflin og hagsmunagæsla peningaaflanna og auðvaldsins hafi þannig valtað yfir almenning. Hann segir jafnframt að stjórnmálin á Íslandi séu vanmáttug til að takast á við spillingu. „Maður skynjar ákveðna uppgjöf og ómöguleika gagnvart því að það sé hægt að breyta einhverju þarna inni. Ég upplifi þetta sem svo að maður sé búinn að missa trúna á að nokkuð muni breytast – pólitíska kerfi, þingið og strúktúrinn í kringum flokkana og stjórnmálin. Það kemur uppgjafatilfinning.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.