Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og tveir aðrir starfsmenn sem starfa í Aðalbyggingu skólans eru komnir í sóttkví, en um helgina var staðfest smit hjá einum starfsmanni sem þar starfar. Rektor greindi frá þessu í orðsendingu til stúdenta og starfsfólks skólans í dag.
„Gripið hefur verið til allra nauðsynlegra ráðstafana í samstarfi við smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis til að hindra útbreiðslu smitsins og gæta þannig fyllsta öryggis starfsfólks og nemenda,“ segir Jón Atli í bréfi sínu, sem lesa má á vef Háskóla Íslands.
Rektor segir að þetta sýni að þrátt fyrir að nýsmitum fari til allrar hamingju fækkandi innanlands sé faraldrinum langt í frá lokið.
„Ég vil því hvetja ykkur öll, kæra samstarfsfólk og nemendur, til að nota rafræna kosti til fundarhalda og fylgja reglum sóttvarnaryfirvalda í einu og öllu. Gætum áfram fyllsta hreinlætis og höldum að minnsta kost eins metra lágmarksbili á milli okkar. Ef við finnum fyrir minnstu einkennum eigum við í öllum tilvikum að halda okkur heima. Einnig vil ég hvetja starfsfólk til að nota fjarfundi eins og kostur er til að lágmarka smithættu,“ segir Jón Atli.