Yfir 20 þúsund manns hafa nú ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem þess er krafist að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána.
„Í kosningunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda að tillögurnar sem kosið var um skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Tillögurnar eru heildstæður samfélagssáttmáli, það er ekki Alþingis að velja og hafna ákvæðum úr sáttmálanum. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax!“ segir í texta sem fylgir með undirskriftasöfnuninni.
Katrín Oddsdóttir, ein forsvarskona undirskriftalistans og formaður Stjórnarskrárfélagsins, segir á Facebook að nú sé tilefni til þess að ærast úr gleði vegna þess að tuttugu þúsunda múrinn hafi verið rofinn.
Markmiðið 25 þúsund undirskriftir
„Hugsið ykkur, tuttugu þúsund hjörtu sem slá í takt og vilja að hlustað sé á almenning í þessu landi þegar það kemur að sjálfum samfélagssáttmálanum,“ skrifar Katrín.
Markið er sett á 25 þúsund undirskriftir en söfnuninni lýkur þann 19. október næstkomandi. „Þetta eru svo dásamlega, yndislega, sturlæðislega frábærar fréttir,“ skrifar hún enn fremur í stöðuuppfærslu á Facebook.
GRJÓTHARÐAR GLEÐIFRÉTTIR!!! AKKÚRAT á þessari mínútu er tilefni til þess að ÆRAST úr gleði TUTTUGU ÞÚSUND nafna múrinn...
Posted by Stjórnarskrárfélagið -The Icelandic Constitution Society on Monday, September 14, 2020
Vandræði með skráningu
Kjarninn greindi frá því í byrjun september að mikið hefði borið á því að fólk næði ekki að skrá sig á listann eða vissi ekki hvort það hefði tekist.
Helga Baldvins Bjargardóttir, ábyrgðarmaður undirskriftalistans, sagði í samtali við Kjarnann að nokkrir einstaklingar, sem héldu að þeir væru búnir að skrá sig á listann, væru ekki á honum – aðrir væru aftur á móti á listanum. „Það er greinilega allur gangur á þessu,“ sagði hún.
„Þetta er svo afhjúpandi fyrir þetta gallaða fyrirkomulag. Bæði það að við fáum ekki listann nema að vaða eld og brennistein og svo þetta að það er eitthvað verulega mikið að notendaviðmótinu hjá þeim þegar margir tugir einstaklinga eru að lenda í því að halda að þeir séu skráðir á lista og eru það svo ekki,“ sagði hún.