Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu um að Jón Höskuldsson og Ragnheiður Bragadóttir verði skipuð í embætti dómara við Landsrétt. Ragnheiður er þegar dómari við Landsrétt en hefur ekki mátt dæma í málum frá því í fyrra, þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að hún, og þrír aðrir dómarar við réttinn, hefðu verið ólöglega skipaðir.
Þrír þeirra fjögurra hafa nú verið skipaðir aftur í Landsrétt.
Með skipun Ragnheiðar losnar því ein staða við Landsrétt sem mun verða auglýst innan tíðar.
Ástráði hafnað í sjötta sinn
Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt hafði komist að þeirri niðurstöðu að þrír umsækjendur væru hæfastir þeirra sjö sem sóttu um tvö embætti, og að ekki yrði gert upp á milli þeirra.
Í ályktunarorðum í umsögn dómnefndar sagði að það væri „niðurstaða dómnefndar að Ástráður Haraldsson, Jón Höskuldsson og Ragnheiður Bragadóttir séu hæfust umsækjenda til að hljóta skipum í tvö embætti dómara við Landsrétt, sem auglýst voru til umsóknar 19. júní, og ekki verði gert upp á milli hæfi þeirra þriggja að því er það varðar.“
Lykilhlutverk í Landsréttarmálinu
Umsækjendurnir þrír voru öll í lykilhlutverkum í Landsréttarmálinu svokallaða, sem snerist um það að þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, gerði breytingu á tillögu dómnefndar um þá 15 dómara sem myndu skipa Landsrétt þegar hann hæfi starfsemi í byrjun árs 2018.
Í kjölfarið hafa íslenskir dómstólar úrskurðað að Sigríður hafi brotið stjórnsýslulög með atferli sínu. Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu í mars í fyrra að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.
Því máli var skotið til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins sem hefur enn ekki lokið umfjöllun sinni um málið.