Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var boðuð, með stuttum fyrirvara, á fund sem hófst klukkan átta í morgun. Á þeim fundi var lögð fram sameiginleg yfirlýsing ASÍ og Icelandair Group um að þau ljúki deilum sín á milli sem staðið hafa yfir frá því um miðjan júlí, þegar Icelandair Group sagði upp öllum starfandi flugþjónum og -freyjum og sagðist ætla að semja við annað stéttarfélag en þeirra. Þær deilur voru á leið fyrir Félagsdóm en samkvæmt yfirlýsingunni verður fallið frá þeirri vegferð.
Í yfirlýsingunni, sem Kjarninn hefur undir höndum þótt hún hafi ekki verið gerð opinber, segir að aðilar séu sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í erfiðum og langdregnum kjaradeilum eigi að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gildi í samskiptum aðila vinnumarkaðar samkvæmt lögum.
Síðan segir: „Það viðbrögð Icelandair, þegar félagið taldi vonlaust um frekari árangur í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands, að segja upp öllum starfandi flugfreyjum og flugþjónum þann 17.7.2020 eru hörmuð enda brutu þau í bága við góðar samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa. Icelandair telur nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns sem tryggir frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum. Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín á milli.“
Með yfirlýsingunni segjast aðilar hennar vera sammála um að „með henni ljúki öllum deilum þeirra á milli um þá atburði sem áttu sér stað í samskiptum þeirra þann 17.7.2020 og mun hvorugur aðila gera kröfur á hinn vegna þeirra.“
Reglulegur miðstjórnarfundur innan ASÍ fer svo fram eftir hádegið í dag.
Útboð Icelandair Group hófst í dag
Hlutafjárútboð Icelandair Group, þar sem félagið ætlar að safna að minnsta kosti 20 milljörðum króna í nýtt hlutafé, hófst í morgun. Á meðal þeirra fjárfesta sem helstar vonir eru bundnar við að taki þátt í útboðinu eru lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Stéttarfélögin VR og Efling skipa stjórnarmenn í báða sjóðina, en forsvarsmenn þeirra beggja hafa gagnrýnt Icelandair harðlega undanfarið. Það hefur Drífa Snædal, forseti ASÍ, líka gert. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær kallaði hún uppsagnir flugþjóna og -freyja eina „grófustu aðför að réttindum vinnandi fólks hér á landi á síðari tímum, aðför sem er þegar skráð á spjöld sögunnar“.
Sambærileg gagnrýni kom fram í grein Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Jónu Sveinsdóttur, stjórnarmanna í Eflingu sem báðar sitja í fulltrúaráði Gildis lífeyrissjóð, sem birtist um helgina. Þar sagði m.a.: „Við munum aldrei una við það að eftirlaunasjóður okkur verði notaður til að niðurgreiða taprekstur stórfyrirtækisins Icelandair og árásir þess á grunnréttindi launafólks. Aldrei."
Lífeyrissjóðirnir sem um ræðir funda í dag og á morgun til að taka ákvörðun um hvort þeir muni taka þátt í útboðinu eða ekki.