Eimskip sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem greint var frá sölu fyrirtækisins á tveimur gámaskipum í þeirra eigu í fyrra. Skipin, sem hétu Goðafoss og Laxfoss, voru sett í endurvinnslu á Indlandi, en fyrirtækið segist ekki hafa tekið ákvörðun um það.
Tilkynningin er send vegna fyrirspurnar frá RÚV í tengslum við sölu og tímabundna endurleigu Eimskips á gámaskipunum. RÚV spurðist einnig fyrir ákvörðun kaupanda skipanna á að setja þau í endurvinnslu á Indlandi í sumar.
Kaupandinn var GMS, sem Eimskip segir vera viðurkenndan alþjóðlegan aðila og stærsta kaupanda í heimi á notuðum skipum. Skipin tvö voru orðin 25 ára gömul, en samkvæmt tilkynningunni hafði það legið fyrir að selja þau um leið og nýju skip félagsins, Dettifoss og Brúarfoss, yrðu afhent.
Samhliða sölunni, sem átti sér stað í desember í fyrra, gerði Eimskip samning um að leigja gömlu skipin á meðan beðið var eftir þeim nýju. Sökum markaðsaðstæðna hafi skipunum hins vegar verið skilað á vormánuðum, sem var fyrr en áætlað hafði verið. Eftir að þeim var skilað ákvað GMS að selja skipin í endurvinnslu á Indlandi .
Eimskip tekur fram að félagið hafi ekki tekið ákvörðun um að skipin yrðu sett í endurvinnslu, en segist hafa fengið upplýsingar um að hún hafi átt sér stað hjá tveimur fyrirtækjum sem starfa samkvæmt alþjóðlegum samningum um örugga endurvinnslu og hafi verið vottaðar fyrir gæðastjórnun, umhverfisstjórnun og vinnuvernd.