Að minnsta kosti 19 ný kórónuveirusmit greindust hér á landi í gær, en þetta kom fram í máli Thors Aspelunds, prófessors í líftölfræði við Háskóla Íslands, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Hann kom þar til að ræða stöðu mála í COVID-19 faraldrinum, sem virðist nú í vexti, en 13 ný smit greindust í fyrradag. Hann sagði smitin nítján vera meira en hann bjóst við.
„Ég gat fengið fréttir af því að það væru komin 19 smit í gær og það er meira en í fyrradag. Ef faraldurinn væri í eðlilegum gangi þá hefði ég búist við minna, ég hefði getað verið rólegur með 8-9 [smit], en 19, nei, þá er eitthvað á seyði,“ sagði Thor við þáttarstjórnendur.
Hann sagði að smitin væru af þeim sama stofni veirunnar og hefur verið að smitast á milli fólks hér á landi frá því í lok júlí. „Það er ekki kominn nýr stofn inn til landsins að kveikja eitthvað annað bál,“ sagði Thor.
Thor sagði að þessi fjöldi smita passaði illa við tölfræðilíkanið um þróun faraldursins sem hann og fleiri hafa þróað. Það væri ljóst að við hefðum beygt af leið.
„Þessi fjöldi smita núna er óvenjulega mikill miðað við fjölda smita í samfélaginu,“ sagði Thor.