Það er aðeins eitt atriði sem er algjörlega öruggt segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður hvað geti skýrt 32 ný smit af kórónuveirunni síðustu tvo sólarhringa: „Veiran virðist hafa miklu meiri dreifingu í samfélaginu heldur en að við vonuðumst til.“
Fjöldi nýgreindra smita er „ansi mikill“ og einstaklingarnir tengjast ekki allir þó að einhverjir þeirra hafi tengsl. Íslensk erfðagreining hefur hafið umfangsmikla skimun meðal nemenda og starfsfólks Háskóla Íslands. Í gær voru sýni tekin frá um 450 manns í skólanum en aðeins einn reyndist sýktur. Þannig að hinir átján sem greindust í gær voru einstaklingar sem beðið höfðu um sýnatöku vegna einkenna.
Þeir sem greinst hafa síðustu daga eru að sögn Kára með mikið veirumagn sem gefur vísbendingu um tvennt: Að stutt sé síðan þeir sjálfir smituðust og þar af leiðandi mjög smitandi og í „aðstöðu til að dreifa þessu víða,“ að sögn Kára.
Honum finnst fullt tilefni til að herða takmarkanir innanlands til að bregðast við fjölguninni. „Mér finnst að við eigum að bregðast hratt við og setja stífari takmarkanir sem við svo afléttum mjög fljótt ef ástandið fer að skána. Af því að stór hluti af þessum smitum er að koma upp hjá ungu fólki þá myndi ég til dæmis leggja til að öldurhúsum samfélagsins yrði lokað yfir þessa helgi. Það væri líklega sú aðgerð sem hefði mest áhrif.“
Nýtt afbrigði komið upp
Sjö þeirra sem greindust í fyrradag reyndust hafa smitast af öðru afbrigði veirunnar heldur en hefur verið hvað skæðast hér á landi síðan í sumar. Þetta afbrigði hafði reyndar áður sést hér á landi í tveimur frönskum ferðamönnum sem hingað komu nýverið. Samkvæmt því sem Kári kemst næst er talið að sjömenningarnir tengist með þeim hætti að þeir hafi allir verið á sama stað á svipuðum tíma. Óvíst hvort að hið nýja afbrigði hafi dreift sér út fyrir þennan hóp því enn er verið að raðgreina sýni sem tekin voru í gær.
„Mér finnst mjög ólíklegt að það hafi nokkuð smit borist inn í landið eftir að tvöföld skimun var tekin hér upp 19. ágúst,“ segir Kári, „ekki nema að einhver hafi brotið skilmála sóttkvíar en mér finnst það ekki líklegt.“
Spurður hvernig þetta afbrigði veirunnar hafi þá komist hingað segir hann líklegt að smit hafi verið „kraumandi undir yfirborðinu“ áður en tvöföld skimun með nokkurra daga sóttkví var tekin upp við landamærin.
Aðeins um helmingur þeirra sem smitast af veirunni verða veikir. Því getur veiran flust mann fram af manni án þess að þeir einstaklingar finni einkenni og átti sig á því að þeir séu smitaðir. Kári tekur sem dæmi að ef fjögurra manna smitkeðja hafi byrjað fyrir 19. ágúst þá séu líkurnar á því að allir þeir einstaklingar hafi verið einkennalausir 1 á móti sextán. „Og það eru ekkert litlar líkur.“
Ekki óviðráðanlegt
„Þetta kvikindi er gætt þeim eiginleikum að það getur dreifst hér víða án þess að menn verði varir við það en svo allt í einu gýs þetta upp á yfirborðið,“ segir Kári um hversu lúmsk veiran getur verið.
Hann vill þó alls ekki meina að vandinn sé óviðráðanlegur. Þegar litið sé til annarra landa í dag sé ljóst að allt annað en auðvelt sé að „takast á við þessa skepnu en saga faraldursins á Íslandi er nær því að vera saga um viðráðanlegan faraldur heldur en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. En þetta er samt erfitt og við verðum að vera á tánum og vinna hratt.“
Spurður út í þá orðræðu sem stundum heyrist þegar smitum fjölgar á Íslandi að fyrst slíkt sé að gerast séu harðar aðgerðir á landamærum tilgangslitlar og jafnvel tilgangslausar. Kára finnst þær röksemdir að fyrst það sé smit í samfélaginu sé í lagi að hafa meira smit í samfélaginu „ótrúlega heimskulegar“.
Þau smit sem nú eru að greinast hafi að hans mati líklegast öll borist hingað til lands fyrir hinar hertu takmarkanir á landamærum. Markmið aðgerðanna sé að minnka líkurnar á því að smit berist inn í landið „og leggi allt á hliðina“. Smitum fari hratt fjölgandi í löndunum í kringum okkur, þeim löndum sem flestir ferðamenn koma frá. Ef slakað yrði á landamæraaðgerðum gæti það þýtt að stór hluti þjóðarinnar þyrfti með auknum fjölda smita að fara í sóttkví. Hann bendir ennfremur á að ef nýgengi smita hér á landi fari yfir 20 á 100 þúsund íbúa á tveimur vikum þá myndu mörg lönd loka á okkur. „Jafnvel sú hugmynd að það væri að halda uppi ferðaþjónustu á meðan allt annað væri á hliðinni stenst ekki.“