Flugfélagið PLAY hefur sent kvörtun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem krafist er afturköllunar á leyfisveitingu ríkisábyrgðar á lánalínu Icelandair. Fjármálaráðuneytið hefur brugðist við kvörtuninni og segir leyfisveitinguna hafa verið á sama lagalega grundvelli og í mörgum sambærilegum málum.
Kvörtunin frá PLAY var send til ESA síðasta mánudag, en í henni skrifar Haukur Logi Karlsson, lögfræðingur á vegum félagsins, að ríkisábyrgðin ætti að vera afturkölluð vegna tveggja ástæða. Annars vegar telur Haukur að leyfi fyrir ábyrgðinni hafi verið veitt á röngum lagagrundvelli, en hins vegar telur hann að ríkisstjórnin hafi ekki tilgreint ESA um alla þætti hennar.
Fjármálaráðuneytið sendi svo frá sér tilkynningu í dag þar sem því er haldið fram að leyfisveiting ESA hafi verið á sama lagalega grundvelli og í sambærilegum ákvörðunum um leyfilega ríkisaðstoð vegna COVID-19. Þar nefnir ráðuneytið sérstaklega mál flugfélaganna SAS, Condor, Austrian Airlines og Alitalia.
Rangur lagalegur grundvöllur og ótilgreindur stuðningur
í bréfi PLAY til ESA er því hins vegar haldið fram að lagalegur grundvöllur leyfisveitingarinnar haldi ekki þar sem tilgangur ríkisábyrgðarinnar sé annar en sá sem ríkisstjórnin tilkynnti til ESA. Í stað yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar til eftirlitsstofnunarinnar um að ríkisábyrgðin væri sértækur stuðningur til Icelandair svo flugfélagið gæti betur staðið undir skuldbindingum sem hafa fallið á það vegna COVID-19 heimsfaraldursins, hafi hún verið kynnt sem aðgerð til að sporna gegn mögulegu efnahagsáfalli á Alþingi. Sé ríkisábyrgðin veitt á þessum grundvelli liggja aðrar reglur fyrir leyfisveitingu hennar, samkvæmt PLAY.
Einnig telur PLAY að allir þættir ríkisábyrgðarinnar hafi ekki verið tilgreindir, þar sem íslenskir ríkisbankar hafi lækkað eiginfjárkröfur til fjárfesta í Icelandair úr 30 prósentum niður í 8 prósent. Þetta sé, að mati PLAY, vísbending um óbeinan stuðning ríkisstjórnarinnar við Icelandair, sem sé ekki tilkynntur til ESA.
Kemur niður á samkeppnisstöðu PLAY
Arnar Már Magnússon, forstjóri PLAY, sagði ríkisábyrgðina koma niður á samkeppnisstöðu PLAY með ýmsum hætti í ítarlegu viðtali við Kjarnann fyrr í vikunni. Þar taldi hann athugavert að Icelandair væri heimilt að ganga á lánalínu með ríkisábyrgð ef flugfélagið nær ekki tekjumarkmiðum vegna meiri samkeppni. Með því yrði PLAY refsað fyrir að hafa betur í samkeppni við Icelandair, verandi félag með lægri rekstrarkostnað.