Bandaríska athafnakonan Michele Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michele Ballarin, skráði sig fyrir 7 milljarða hlut í hlutafjárútboði Icelandair Group, sem lauk kl. 16 í dag. mbl.is sagði fyrst frá þátttöku Ballarin í útboðinu.
Í samtali við Kjarnann staðfestir Gunnar Steinn Pálsson almannatengill og talsmaður Edwards hér á landi að hún hafi skráð sig fyrir umfangsmiklum hlut í útboðinu, án þess þó að vilja staðfesta upphæðina.
Kjarninn hefur hins vegar heimildir fyrir því að hún sé 7 milljarðar króna, eins og bæði mbl.is og Vísir hafa þegar sagt frá, og að Edwards vilji eignast nægilega stóran hlut til þess að vera með mikil ítök í Icelandair Group.
Milljarðarnir sjö eru drjúgur hluti af þeim 20 milljörðum króna sem Icelandair Group ætlaði sér að lágmarki að safna í hlutafjárútboðinu og helmingur af lágmarksupphæðinni sem til þurfti frá fjárfestum til að tryggja að útboðið gengi upp.
Ríkisbankarnir, Landsbankinn og Íslandsbanki, eru með sölutryggingu á útboðinu, ef það nær 14 milljörðum þá eru þeir búnir að skuldbinda sig til að kaupa fyrir 6 milljarða til viðbótar svo lágmarksupphæðin náist.
Fyrst heyrðist af veru Edwards á landinu í frétt á Vísi fyrr í dag eftir að til hennar sást á kaffihúsi í Borgartúni, þar sem hún virtist vera að fara þvert á gildandi sóttvarnareglur í landinu.
Edwards er þekkt hér á landi fyrir að hafa keypt eignir úr þrotabúi WOW air í fyrra, meðal annars sjálft vörumerki hins fallna flugfélags, en hún boðaði til blaðamannafundar fyrir rösku ári síðan þar sem hún boðaði endurkomu WOW air.
Hún áformaði að flug myndi hefjast á milli Dulles-flugvallar í Washington í Bandaríkjunum og Keflavíkurflugvallar í október í fyrra. Síðan þá hefur lítið heyrst af framgangi hins endurnýjaða WOW air.
Gunnar Steinn sagði við Vísi fyrr í dag að Edwards væri að hugsa með sér hvort hún gæti slegið vörumerki WOW air og Icelandair Group saman, með einhverjum hætti, á krefjandi tímum í flugbransanum.