Mikil umframeftirspurn var í hlutafjárútboði Icelandair Group, sem lauk kl. 16 í gær, en alls skráðu fjárfestar yfir 9 þúsund áskriftir, samtals að fjárhæð 37,3 milljarðar króna, sem þýðir um 85 prósenta umframeftirspurn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group. Þar segir einnig að stjórn félagsins hafi samþykkt áskriftir að fjárhæð 30,3 milljarða og ákveðið að nýta heimild til þess að stækka útboðið, þannig að fjöldi seldra hluta verði 23 milljarðar. Hver hlutur kostaði eina krónu í útboðinu.
Núverandi hluthafar sem tóku þátt í útboðinu fengu fulla úthlutun í samræmi við hlutafjáreign þeirra. Áskriftum allra þeirra um það bil 1.000 starfsmanna Icelandair Group sem tóku þátt í útboðinu verður úthlutað án skerðingar, auk allra áskrifta sem námu einni milljón króna eða minna. Hlutfallsleg skerðing annarra áskrifta verður um 37 prósent.
Ballarin hafnað?
Samkvæmt tilkynningu Icelandair voru það 7 milljarðar sem stjórn félagsins samþykkti ekki, en það er einmitt sama upphæð og bandaríska athafnakonan Michele Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michele Ballarin, skráði sig fyrir í útboðinu, samkvæmt því sem Kjarninn kemst næst og fjallaði um í gær.
Engin sölutrygging frá ríkisbönkunum
Fjöldi hluthafa í félaginu í kjölfar útboðsins verður yfir 11.000, en í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að mikil eftirspurn hafi verið frá almennum fjárfestum og að eignarhlutur þeirra í félaginu verði um 50 prósent í kjölfar útboðsins.
Sökum þess að það var umframeftirspurn í útboðinu virkjaðist ekki sölutrygging ríkisbankanna tveggja, Landsbanka og Íslandsbanka, sem höfðu skuldbundið sig til þess að draga Icelandair Group að landi með kaupum fyrir allt að sex milljarða króna í útboðinu, ef svo færi að 20 milljarða markið næðist ekki.
Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er 23. september 2020, en fjárfestar eiga að geta séð fyrir lok dagsins í dag hvort stjórn Icelandair samþykkti úthlutun þeirra og hver hún er. Eftir útgáfu nýrra hluta verður heildarhlutafé Icelandair Group alls um 28,4 milljarðar króna, en samkvæmt tilkynningu er reiknað með að viðskipti hefjist með nýju hlutina í Kauphöll ekki síðar en 12. október.
Bogi: Nýr kafli er að hefjast
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group segir forystuteymi félagsins auðmjúkt og þákklátt „fyrir það mikla traust sem Icelandair Group var sýnt í hlutafjárútboðinu sem er lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.“
„Með breiðari hluthafahópi, sterkum efnahagsreikningi og sveigjanlegu leiðakerfi munum við verða tilbúin að bregðast hratt við þegar eftirspurn tekur við sér á ný. Við ætlum okkur, hér eftir sem hingað til, að tryggja öflugar flugsamgöngur til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið með tilheyrandi ávinningi fyrir íslenskt efnahagslíf og lífsgæði hér á landi,“ er haft eftir Boga í tilkynningu félagsins.
Forstjórinn segist þakklátur og stoltur og segir starfsfólk hafa unnið þrekvirki við fjárhagslega endurskipulagningu og þjónustu við viðskiptavini í heimsfaraldri.
„Nýr kafli er að hefjast í yfir 80 ára sögu félagsins og ég býð yfir sjö þúsund nýja hluthafa velkomna til liðs við okkur,“ segir Bogi í tilkynningunni.