Sjötíu og fimm greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær en 49 prósent voru í sóttkví við greiningu. Undanfarna fjóra daga hafa 128 smit greinst innanlands. Þetta kemur fram á vefnum covid.is. Almannavarnir hafa boðað til blaðamannafundar vegna ástandsins klukkan 14 í dag.
Alls voru rúmlega 3.600 sýni tekin á landinu í gær, þar af 1.250 í skimunum Íslenskrar erfðagreiningar. Nýgengi á Íslandi er nú komið yfir 41.
Tæplega 1.200 manns leituðu í skimun vegna einhverra einkenna. 181 einstaklingur er nú með virkt smit innanlands og tveir eru nú á sjúkrahúsi vegna COVID-19.
Alls eru 765 einstaklingar í sóttkví og 1.606 til viðbótar í skimunarsóttkví eftir að hafa komið hingað til lands undanfarna daga.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra féllst á tillögu sóttvarnalæknis í gær um að loka skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu, tímabundið í fjóra daga frá 18. til 21. september. Þetta var gert til að sporna við útbreiðslu COVID-19.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis um þessar ráðstafanir segir að á þremur sólarhringum þar sem greindust alls 38 smit hafi að minnsta kosti fjórðungur þeirra tengst heimsókn á ákveðnar krár og skemmtistaði í Reykjavík fyrir rúmri viku.
Bregðast þurfi við sem fyrst með markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur með tilheyrandi afleiðingum.