„Það er gríðarleg ásókn í sýnatökur og tímar sem fólk getur bókað sjálft á heilsuvera.is bókuðust upp fljótt. Því viljum við biðja þá sem ekki eru með einkenni og hafa ekki rökstuddan grun að hafa orðið fyrir smiti að bóka ekki eða biðja um sýnatöku að svo stöddu.“
Þetta sagði Alma Möller landlæknir á blaðamannafundi almannavarna í dag.
Þá vildi hún sérstaklega biðla til fyrirtækja að krefjast ekki skimunar fyrir starfsfólk nema til komi ósk frá smitrakningateymi.
Þeir sem eru í sóttkví fá boð um að mæta í sýnatöku
Þrjátíu ný tilfelli af COVID-19 greindust hér á landi í gær. Allir þeir sem greindust höfðu farið í sýnatöku vegna einkenna. Í gær voru tekin 2.395 sýni vegna kórónuveirunnar, þar af 1.077 einkennasýni. Þetta eru töluvert færri sýni en tekin voru á föstudag og sunnudag en þó fleiri en dagana þar á undan. Rétt rúmlega helmingur þeirra sem greindist í gær var í sóttkví við greiningu.
Fram kom í máli Ölmu að áfram væri hægt að fá símtal við heilsugæsluna varðandi hugsanlegar sýnatökur. Hún sagði að þeir sem eru með einkenni sem samrýmast COVID-19 yrðu að geta gengið fyrir þannig að þeim væri forgangsraðað. Þá ítrekaði hún að þeir sem eru í sóttkví fengju boð þegar þeir eiga að mæta í sýnatöku og ekki þýddi að reyna að fá henni flýtt.
Staðan alvarleg
Alma sagði á fundinum að þessi fjölgun smita væri áhyggjuefni – staðan væri alvarleg og þess vegna þyrfti að skerpa á öllum þáttum sóttvarna.
„Það eru þegar miklar aðgerðir í gangi og það er mikið í höndum okkur sem einstaklinga hvernig mál þróast og við verðum að taka okkur á.
Við ættum að forðast margmenni og þétta okkar innsta kjarna eða þá sem við umgöngumst mest – einkum þeir sem tilheyra áhættuhópum. Þeir sem reka stofnanir og fyrirtæki þurfa að gera allt sem þeir geta til að gæta ýtrustu sóttvarna. Það er hvatt til fjarvinnu og fjarkennslu eins og kostur er. Það er hvatt til grímunotkunar,“ sagði hún.
Óska eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks í bakvarðasveit
Heilbrigðisyfirvöld óskuðu í morgun eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.
Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar var sett á fót í upphafi COVID-19 faraldursins í vor þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar.
Lokun kráa og skemmtistaða framlengd
Einnig tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í dag að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefði fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að framlengja tímabundna lokun skemmtistaða og kráa til og með sunnudagsins 27. september næstkomandi.
Sem fyrr tekur lokunin til kráa og skemmtistaða í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Kjósarhreppi og á Seltjarnarnesi.