Virði evrópskra tæknifyrirtækja varð meira en virði evrópskra banka í september, í fyrsta skiptið í sögunni. Greiningaraðilar benda á þrengri útlánaskilyrði í bönkum, auk meiri afskrifta á lánum í kjölfar efnahagsáfallsins vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Svipaða þróun má sjá í Kauphöllinni hér á landi.
Breska blaðið Financial Times greindi fyrst frá málinu, en notaði gögn fra greiningarfyrirtækinu Refinitiv sér til stuðnings. Samkvæmt umfjöllun blaðsins sést gott gengi tæknifyrirtækja best Vestanhafs, þar sem Nasdaq 100-vísitalan, sem inniheldur mörg bandarísk tæknifyrirtæki, hefur hækkað um 27 prósent á árinu.
Vöxtur tæknifyrirtækja í Evrópu hefur verið hóflegri, eða um 11 prósent á árinu. Sú þróun er þó mun jákvæðari en hjá bönkum í álfunni, en vísitala þeirra hefur lækkað um þriðjung á sama tímabili. Nú er markaðsvirði skráðra tæknifyrirtækja metið á 842 milljarða evra, sem samsvara um 136 billjónum íslenskra króna, á meðan markaðsvirði bankanna nær 822 milljörðum evra, eða um 133 billjónum króna.
Stærsta evrópska tæknifyrirtækið er þýski hugbúnaðarrisinn SAP, en virði þess fyrirtækis hefur hækkað um 14 prósent frá ársbyrjun. Gengið var þó enn betra hjá örflögufyrirtækinu ASML og hálfleiðaraframleiðandanum Infineon, en hlutabréfaverð beggja fyrirtækjanna hækkaði um 19 prósent á sama tímabili.
Vaxtalækkanir „lykilatriði“
Samhliða góðu gengi evrópsku tæknifyrirtækjanna hafa skilaboð stjórnvalda í álfunni um að halda vöxtum lágum til að bregðast við kórónukreppunni haft neikvæð áhrif á framtíðarhorfur banka og annarra útlánastofnana. Kian Abouhossein, greiningaraðili hjá JPMorgan, sagði í viðtali við Financial Times að ákvörðun Evrópska seðlabankans um að lánveitendur greiði ekki arð út árið væri einn af lykilþáttunum að baki þessarar þróunar.
Svipuð þróun á Íslandi
Svipaða þróun má sjá í Kauphöll Íslands ef gengi banka og tæknifyrirtækja er borið saman. Frá ársbyrjun hefur virði bréfa í Arion banka lækkað um 13 prósent, auk þess sem virði hlutabréfa í Kviku banka hefur lækkað um 2 prósent. Gengi tæknifyrirtækisins Origo hefur hins vegar batnað, en hlutabréf þess eru nú um 12 prósent dýrari en þau voru við byrjun árs.