Þrjátíu og átta kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Langflestir sem greindust höfðu farið í sýnatöku vegna einkenna, eða 31. Í gær voru tekin 4.307 sýni vegna kórónuveirunnar, þar af 1.872 einkennasýni.
Helmingur þeirra sem greindist í gær var í sóttkví við greiningu.
Á vefnum covid.is kemur fram að 281 sé nú í einangrun með COVID-19 og 2.283 í sóttkví. Þar kemur einnig fram að nýgengi innanlandssmita sé orðið 68,4 en þar er átt við fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa.
Heilbrigðisyfirvöld óskuðu í gær eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.
Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar var sett á fót í upphafi COVID-19 faraldursins í vor þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar.
Einnig tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í gær að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefði fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að framlengja tímabundna lokun skemmtistaða og kráa til og með sunnudagsins 27. september næstkomandi.
Sem fyrr tekur lokunin til kráa og skemmtistaða í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Kjósarhreppi og á Seltjarnarnesi.