Stefán Sveinbjörnsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE), hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um hlutafjárútboð Icelandair í fjölmiðlum. Þar segir hann að niðurstaðan á ítarlegu mati stjórnar LIVE á því hvort fjárfesta ætti í Icelandair hefði verið sú að „áhættan í fjárfestingunni væri mikil og vænt ávöxtun vægi ekki upp þá áhættu.“
Deilur voru innan stjórnar lífeyrissjóðsins um hvort taka ætti þátt í útboðinu og þær hafa að hluta farið fram fyrir opnum tjöldum, eftir að útboðið fór fram. Guðrún Hafsteinsdóttir varaformaður stjórnar sjóðsins, hefur harmað að LIVE hafi ekki verið með. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR lýsti í dag yfir vantrausti á hana. Fjármálaeftirlitið er að skoða ákvarðanatöku lífeyrissjóða varðandi útboðið.
Stefán segir í yfirlýsingu sinni að strax þegar Icelandair tilkynnti um útboðið hefði orðið ljóst að LIVE þyrfti að taka ákvörðun um að taka þátt, eða ekki. „Ljóst var að um óvenjulegt útboð væri að ræða þar sem hlutafjáraukningunni var ætlað að mæta taprekstri komandi mánaða,“ segir Stefán, sem fer yfir það hvernig LIVE tók ákvörðun sína.
„Lífeyrissjóður verzlunarmanna fór í mjög ítarlega greiningu á þessum fjárfestingakosti. Sú greining fól m.a. í sér að fenginn var utanaðkomandi ráðgjafi til að rýna fjárfestingakostinn, haldnir voru fundir með stjórnendum Icelandair, sendar voru skriflegar spurningar til félagsins, farið var í rýnivinnu með sérfræðingum (e. airline specialists) hjá Bloomberg, rýnt var í greiningarefni úr fluggeiranum, rýnt var í ársreikninga erlendra flugfélaga og fenginn var erlendur ráðgjafi til að rýna í umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnhætti félagsins. Til viðbótar þessu stillti lífeyrissjóðurinn í samstarfi við ráðgjafa sinn upp verðmatslíkani til að meta vænta ávöxtun af fjárfestingunni,“ segir Stefán og bætir við að sjaldan hafi „fjárfestingakostur sjóðsins verið rýndur með jafn ítarlegum hætti og hlutafjárútboð Icelandair.“
Bendir á að fleiri lífeyrissjóðir hafi verið á sömu skoðun
Hann segir að fjórir stjórnarfundir hafi verið haldnir þar sem fjárfestingin var skoðuð og rædd ítarlega.
„Niðurstaðan var að áhættan í fjárfestingunni væri mikil og vænt ávöxtun vægi ekki upp þá áhættu. Á þeim forsendum var tekin ákvörðun um að taka ekki þátt í útboðinu. Eins og fram hefur komið voru fleiri lífeyrissjóðir á sömu skoðun og Lífeyrissjóður verzlunarmanna að taka ekki þátt,“ segir Stefán.
Hann segir ennfremur að hjá LIVE sé „fagmennskan í fyrirrúmi“ og teknar séu ákvarðanir þar sem gætt er jafnræðis sjóðsfélaga.
„Í þessu máli sem öðrum réð fagmennska og hagsmunir sjóðfélaga því hvort sjóðurinn bætti við þá hlutafjáreign sem fyrir var í þessu tiltekna félagi,“ segir Stefán.