Sterk efnahagsleg rök liggja að því að ferðaþjónustunni og öðrum sem bíða tjóns af sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda fái sértæka styrki, að mati Má Guðmundssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumanns efnahagssviðs SA.
Þetta kom fram á pallborðsumræðum á vegum Félags viðskipta- og hagfræðinga um hagræn áhrif sóttvarnaraðgerða fyrr í dag. Auk Más og Önnu var þar Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Ósammála um aðgerðir á landamærunum
Á fundinum sagðist Már, sem leiðir starfshóp fjármálaráðuneytisins um efnahagsleg áhrif sóttvarnaraðgerða, telja að hertu úrræðin sem ráðist var í á landamærunum í síðasta mánuði hafi verið bæði réttar og óhjákvæmilegar. Hann bætir við að töluvert sterkar vísbendingar séu uppi um að smitin sem Íslendingar séu að glíma við núna hafi komist inn í landið áður enn aðgerðirnar hafi verið hertar.
Konráð telur þó óraunhæft að halda aðgerðunum í óbreyttri mynd, þar sem þær fela í sér mikinn efnahagsskaða. Samkvæmt honum er erfitt að halda landinu veirufríu og nefnir hann Nýja-Sjáland sem dæmi, þar sem veiran hefur haldið áfram að blossa upp þrátt fyrir harðar takmarkanir á landamærunum.
Að mati Önnu Hrefnu er það eðlilegt að fólk velti því upp hvort réttlætanlegt væri að vera með jafnharðar sóttvarnaraðgerðir núna og í vor, þegar mun minna var vitað um veiruna: „Með þessari gagnrýni sem kemur þegar landamæralokun í ágúst á sér stað, þá er bara verið að reyna að finna þessi mörk. Hvert er þol almennings og hagsmunaaðila gagnvart þessum aðgerðum?“
Hagfræðileg rök fyrir að bæta ferðaþjónustuna
Meiri samhljóm mátti hins vegar finna á milli Más og Önnu Hrefnu þegar rætt var um bætur til ferðaþjónustunnar og annarra aðila sem bera skaða af sóttvarnaraðgerðunum.
Anna Hrefna segir það vera siðferðislegt og lögfræðilegt álitamál hvort ferðaþjónustan eigi rétt á bótum vegna aðgerðanna og nefnir að fjöldi málsókna séu í farvatninu tengdar aðgerðum vegna COVID-faraldursins í Bandaríkjunum. Hins vegar telji hún að frekar eigi að hugsa út frá hagfræðilegu sjónarmiði hvort þjóðfélagið eigi að tryggja að ferðamannaiðnaðurinn geti staðið fyrir þeirri verðmætasköpun sem hún hefur verið að gera síðustu ár.
Már tekur undir það sjónarmið og bætir við að sóttvarnaraðgerðirnar kalli á sértækan stuðning, þar sem margir njóta þeirra á kostnað fárra: „Ef að það er talið nauðsynleg að gera eitthvað sem felur í sér ávinning fyrir heildina, en kostnaðinum sé mjög misdreift... þá eru auðvitað mjög sterk rök fyrir því að bæta tjónið upp fyrir þá sem finna mest fyrir því.“
Már Guðmundsson er orðinn fastur penni hjá vikuritinu Vísbendingu, sem er gefið út af Kjarnanum. Í síðustu grein sinni fór hann yfir skýrslu starfshópsins sem hann leiðir og nefndi þær áskoranir sem stjórnvöld standa frammi fyrir þegar sóttvarnaraðgerðir eru ákvarðaðar.
Orðalagi fréttarinnar hefur verið breytt.