Samanlagt atvinnuleysi þeirra sem eru í almenna bótakerfinu eða á hinni svokölluðu hlutabótaleið var 9,4 prósent í lok síðasta mánaðar. Það er umtalsverð aukning frá mánuðinum á undan þegar það var 8,8 prósent og meira en spá Vinnumálastofnunar hafði gert ráð fyrir.
Búist er við því að atvinnulausi haldi áfram að vaxa næstu mánuði. Spá Vinnumálastofnunar gerir ráð fyrir að það verði 9,6 prósent í lok þessa mánaðar og 10,2 prósent í lok október. Mest fór heildaratvinnuleysið upp í 17,8 prósent í apríl en 10,3 prósentustig voru þá vegna hlutabótaleiðarinnar. Nýting á henni hefur dregist verulega saman síðan þá.
Þetta kemur fram í nýrri vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar sem birt var nýlega og sýnir stöðu mála á vinnumarkaði um síðustu mánaðamót.
Fjöldi þeirra sem var í minnkuðu starfshlutfalli vegna hlutabótaleiðarúrræðisins var sá sami og í júlílok, en atvinnuleysi tengt þeirri leið var 0,9 prósent.
Flestir úr ferðaþjónustu
Alls voru 17.788 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu um síðustu mánaðamót og 3.483 á hlutabótaleiðinni. Þeim sem voru almenna bótakerfinu fjölgaði um 684 en þeim sem nýttu hlutabótaleiðina fækkaði um 328. Alls voru 21.271 manns samanlagt atvinnulausir að öllu leyti eða að hluta.
Flestir þeirra sem eru að missa vinnuna störfuðu áður í ferðaþjónustutengdum geirum, eða 36 prósent. Atvinnuleysið er áfram sem áður hlutfallslega langmest á Suðurnesjunum, sem er afar háð ferðaþjónustu um atvinnu þar sem alþjóðaflugvöllur landsins er staðsettur þar. Alls mælist 18 prósent heildaratvinnuleysi á svæðinu en 16,9 prósent almennt atvinnuleysi. Næst mest heildaratvinnuleysi mælist á höfuðborgarsvæðinu, eða 9,9 prósent.
Rúmlega fimmti hver útlendingur atvinnulaus
Erlendir ríkisborgarar léku lykilhlutverk í hagvaxtarskeiðinu sem hófst árið 2011 og ómögulegt hefði veið að manna öll þau störf sem sköpuðust á tímabilinu ef ekki hefði verið fyrir erlent vinnuafl. Frá miðju ári 2012 og fram til loka júnímánaðar fjölgaði þeim úr 20.570 í 50.701 hérlendis, eða um yfir 30 þúsund. Af þeim eru um 75 prósent á vinnumarkaði.
Rúmlega fjórðungur erlends vinnuafls hérlendis á síðasta ári starfaði í ferðaþjónustu. Þessi hópur varð því sá fyrsti til missa vinnuna þegar mikill samdráttur varð í ferðaþjónustu samhliða kórónuveirufaraldinum.
Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið nálægt 20,7 prósent ágúst og jókst það lítillega milli mánaða. Það þýðir að rúmlega fimmti hver erlendur ríkisborgari á íslenskum vinnumarkaði var án atvinnu um síðustu mánaðamót, eða alls 7.173 manns. Auk þess voru 723 erlendir ríkisborgarar á hlutabótaleiðinni. Í fyrra á sama tíma var 2.605 erlendur ríkisborgari án atvinnu og hefur þeim sem eru almennt atvinnulausir því fjölgað um 175 prósent fá einu ári.
Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá komu frá Póllandi eða 3.644, sem er um 51 prósent allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Pólverjar eru langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara sem búsettur er á Íslandi.