Alls áttu Íslendingar verðbréf fyrir 558 milljarða króna að nafnvirði um síðustu áramót. Það er 40 milljörðum krónum meira en einstaklingar áttu af slíkum ári áður.
Meginþorri verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga tilheyra þeim tíu prósentum landsmanna sem eru ríkastir. Sá hópur, tæplega 23 þúsund fjölskyldur, á 86 prósent allra verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga.
Alls er nafnvirði verðbréfaeignar þeirra 480,5 milljarðar króna og hún jókst um 34,3 milljarða króna í fyrra. Það þýðir að 86 prósent af nýrri verðbréfaeign féll í hlut þessa hóps.
Þetta kom fram í nýjum tölum um eignir og skuldir landsmanna sem Hagstofa Íslands birti í liðinni viku.
Jókst um 192 milljarða á sex árum
Verðbréf eru hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum á nafnvirði, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur. Þar sem hlutabréfin eru metin á nafnvirði í tölum Hagstofunnar er ómögulegt að vita hvað markaðsvirði þeirra, það sem myndi fást fyrir bréfin ef þau yrðu seld í dag, sé.
Á sex ára tímabili, frá lokum árs 2013 og fram að síðustu áramótum, hefur verðbréfaeign Íslendinga vaxið um 192 milljarða króna samkvæmt samantekt Hagstofunnar, eða um 52 prósent. Af þeirri upphæð hefur 175 milljarðar króna farið til þeirra tíu prósenta landsmanna sem mest eiga, eða 91 prósent.
Almenningur á lífeyrissjóðina
Stærstu eigendur verðbréfa á Íslandi eru lífeyrissjóðir. Þeir eiga þorra markaðsskuldabréfa og víxla (alls fyrir rúmlega tvö þúsund milljarða króna um mitt þetta ár) í landinu og um 40 prósent af markaðsvirði skráðra félaga (801 milljarðar króna beint og óbeint um mitt þetta ár).
Auk þess eiga þeir erlend hlutabréf og hlutdeildarskírteini sem metin voru á 1.660 milljarða króna í lok júní síðastliðins.
Eigendur lífeyrissjóða eru fólkið í landinu, sem er skyldugt samkvæmt lögum að greiða inn í þá mánaðarlega af launum sínum. Lífeyrissjóðirnir ávaxta síðan það fé með það fyrir augum að tryggja sem flestum áhyggjulaust ævikvöld með lífeyrisgreiðslum. Hagstofan tekur ekki með eign almennings í lífeyrissjóðum í tölum sínum um eignir og skuldir landsmanna.
Alls voru allar eignir lífeyrissjóða landsins 5.291 milljarðar króna í lok júní. Þær hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum, en um mitt ár 2016 voru þær til að mynda 3.540 milljarðar króna.