Alls námu fjármagnstekjur landsmanna 141,7 milljörðum króna á síðasta ári. Þær jukust um 3,9 milljarða króna á milli ára eftir að hafa dregist saman á árinu 2018 um 28,2 milljarða króna.
Þær tæplega 23 þúsund fjölskyldur sem mynda saman ríkustu tíund landsins afla þorra fjármagnstekna, sem eru allar vaxtatekjur auk söluhagnaðar, arðs og tekna af atvinnurekstri. Í fyrra tók hún til sín 99,8 milljarða króna í fjármagnstekjur eða um 70,5 prósent allra slíka tekna.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir landsmanna sem birtar voru í liðinni viku.
Landsmenn eiga enn langt í land með að ná þeim methæðum í uppgefnum fjármagnstekjum samkvæmt skattframtölum sem voru við lýði fyrir bankahrun. Árið 2006 var heildarumfang slíkra tekna 172 milljarðar króna og árið 2007, sem enn er metár yfir uppgefnar fjármagnstekjur í Íslandssögunni, voru þær 262,7 milljarðar króna. Það ár rataði um 82 prósent fjármagnstekna til þeirra tíu prósent landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar.
Eigið fé í fyrsta sinn meira en fimm þúsund milljarðar
Kjarninn greindi frá því í vikunni að eigið fé Íslendinga, það sem stendur eftir þegar búið er að draga skuldir frá eignum, hafi hækkað um 433 milljarða króna í fyrra. Það er töluvert minna en sú hækkun sem varð á árunum 2017 (760 milljarðar króna) og 2018 (641 milljarðar króna), en vert er að taka fram að á þeim árum varð mesta hækkun sem átt hefur sér stað á vexti á eigin fé frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur.
Uppgangur síðustu ára hefur skilað því að eigið fé landsmanna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 milljarðar króna í lok árs 2010 í að vera 5.176 milljarðar krókna um síðustu áramót. Það hefur aldrei verið meira og er nú í fyrsta sinn yfir fimm þúsund milljarðar króna.
Mest fer til þeirra sem eiga mest
Á þessu tímabili, frá byrjun árs 2011 og út síðasta ár, hafa orðið til 3.612 nýir milljarðar króna í íslensku samfélagi. Þorri þeirrar upphæðar, 1.577 milljarðar króna, hafa farið til þeirra tíu prósent landsmanna sem eiga mest, alls 22.697 fjölskyldna, eða tæplega 44 prósent.
Í fyrra jókst auður þessa hóps um 198 milljarða króna á á síðustu þremur árum hefur hann vaxið um 865 milljarða króna. Á sama tíma hefur heildarauður landsmanna aukist um 1.833 milljarða króna. Því hefur um 47 prósent af því nýja eigin fé sem orðið hefur til á Íslandi á árunum 2017, 2018 og 2019 farið til þeirrar tíundar sem átti mest fyrir.
Sá hópur átti rúmlega 56 prósent af öllu eigin fé landsmanna um síðustu áramót, eða alls 2.927 milljarða króna. Þar á meðal er tæplega helmingur alls eigin fjár í fasteignum sem til er í landinu og rúmlega helmingur allra innlána.