Það tímabil sem foreldrar hafa til að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs verður stytt úr tveimur árum niður í eitt og hálft ár, samkvæmt drögum að nýju frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof sem lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Þetta er meðal annars lagt til með það að markmiði að foreldrar séu í orlofi þegar barnið þarf á mikilli umönnun þeirra að halda, auk þess sem lagt er upp með að foreldrar nýti rétt sinn til fæðingarorlofs frá því að barnið fæðist og þar til því býðst dagvistun.
Orlofstímabilið sem ráðgert er að stytta var 18 mánuðir fram til 2009, en þá var tímabilið lengt í 36 mánuði. Árið 2012 var tímabilið stytt aftur í 24 mánuði og með nýju frumvarpi er lagt til að stytta tímabilið á ný í 18 mánuði.
Skipting orlofsréttar verði sem jöfnust
Einnig er lagt til að skipting fæðingarorlofsréttar verði sem jöfnust á milli foreldra, þannig að foreldrar geti nýtt sex mánuði hvort um sig þegar fæðingarorlofið verður lengt í 12 mánuði í upphafi næsta árs. Þó verður heimilt fyrir foreldra að færa einn mánuð sín á milli.
Í dag er fæðingarorlofið 10 mánuðir, 4 mánuðir á hvort foreldri, auk tveggja mánaða sem foreldrar eiga sameiginlega. Samkvæmt frumvarpsdrögunum hefur reynslan hérlendis sýnt að stærstur hluti feðra nýtir einungis sinn sjálfstæða rétt en mæður bæði sinn sjálfstæða rétt og sameiginlegu mánuðina sem hafi verið í gildandi löggjöf. Þannig hafi reynslan hérlendis sýnt „ríka tilhneigingu til þess að mæður nýti þann tíma fæðingarorlofs sem er sameiginlegur milli foreldra.“
Þessu á að reyna að breyta með frumvarpinu. Í umfjöllun um þetta atriði segir að mikilvægt sé að sem minnstur hluti fæðingarorlofsréttar verði með þeim hætti að foreldrar geti skipt honum með sér. Óframseljanlegur fæðingarorlofsréttur feðra geti þannig styrkt stöðu þeirra til töku fæðingarorlofs gagnvart vinnuveitendum.
Þessari breytingu er með öðrum orðum ætlað að styðja við það að frumvarpið nái markmiðum sínum sem eru meðal annars þau að hvetja báða foreldra til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi.
„Á sama tíma er breytingunni ætlað að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og jafna tækifæri foreldra á vinnumarkaði og gera báðum foreldrum auðveldara að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og einkalífi,“ samkvæmt því sem segir í greinargerð frumvarpsins um þetta atriði.
Foreldrar fái sjálfstæðan rétt til orlofstöku eftir fósturlát
Í frumvarpsdrögunum er lagt til að hvort foreldri fái sjálfstæðan rétt til tveggja mánaða fæðingarorlofs vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu, en í gildandi lögum er einungis kveðið á um sjálfstæðan rétt foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingastyrks vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu, en tveggja mánaða sameiginlegan rétt foreldra eftir fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir um þetta atriði að reynslan hafi sýnt að „mæður hafa nær eingöngu nýtt sameiginlegan rétt forelda til fæðingarorlofs við fósturlát og þá hefur þótt vera of mikill munur á réttindum foreldra eftir því hvort um andvanafæðingu eða fósturlát hefur verið að ræða en meðgöngulengd í þessum tilvikum getur verið nánast sú sama.“
Heildarendurskoðun samhliða lengingu fæðingarorlofsins
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra tilkynnti fyrir um ári síðan að fæðingarorlofið yrði lengt upp í eitt ár í áföngum og á sama tíma var vinna við heildarendurskoðun lagaumgjarðarinnar í kringum fæðingarorlof sett af stað.
Starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins, sem skipaður var fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun hefur síðan unnið að endurskoðun laganna og á vinnu þessa starfshóps byggja drögin sem kynnt voru í samráðsgáttinni í gær.
Þar er hægt að gera athugasemdir við frumvarpið þar til 7. október.