Yfir 25 þúsund manns hafa nú ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem þess er krafist að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána.
Þar með hafa forsvarsmenn undirskriftasöfnunarinnar náð upphaflegu markmiði sínu, að safna yfir 25 þúsund undirskriftum, eða yfir tíu prósent kjósenda. Samkvæmt nýju stjórnarskránni hefði sá fjöldi verið nægjanlegur til að leggja fram frumvarp á Alþingi.
Enn er tæpur mánuður eftir af söfnuninni, sem stendur til 19. október næstkomandi.
Kosið var um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá þann 20. október 2012. Um var að ræða alls sex spurningar en sú fyrsta var hvort viðkomandi vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Alls sögðu 64,2 prósent þeirra sem greiddu atkvæði já við þeirri spurningu. Kjörsókn var 49 prósent.
Katrín Oddsdóttir, ein forsvarskona undirskriftalistans og formaður Stjórnarskrárfélagsins, fagnaði þessum áfanga á Facebook:
ÞAÐ TÓKST! Ég trúi þessu ekki. ÞAÐ TÓKST!
Posted by Katrín Oddsdóttir on Wednesday, September 23, 2020
Vandræði með skráningu
Kjarninn greindi frá því í byrjun september að mikið hefði borið á því að fólk næði ekki að skrá sig á listann eða vissi ekki hvort það hefði tekist.
Helga Baldvins Bjargardóttir, ábyrgðarmaður undirskriftalistans, sagði í samtali við Kjarnann að nokkrir einstaklingar, sem héldu að þeir væru búnir að skrá sig á listann, væru ekki á honum – aðrir væru aftur á móti á listanum. „Það er greinilega allur gangur á þessu,“ sagði hún.
„Þetta er svo afhjúpandi fyrir þetta gallaða fyrirkomulag. Bæði það að við fáum ekki listann nema að vaða eld og brennistein og svo þetta að það er eitthvað verulega mikið að notendaviðmótinu hjá þeim þegar margir tugir einstaklinga eru að lenda í því að halda að þeir séu skráðir á lista og eru það svo ekki,“ sagði hún.
Tekist á um efni
Hópurinn sem stendur að undirskriftarsöfnuninni hefur einnig staðið fyrir margháttaðri vitundarvakningu um nýju stjórnarskránna, meðal annars með myndböndum sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum.
Sú herferð var til þess að Samband ungra Sjálfstæðismanna (SUS) setti á laggirnar það sem það kallar „staðreyndavakt um íslensku stjórnarskrána, breytingar á stjórnarskránni, breytingatillögur og annað sem að stjórnarskránni snýr“ á vefsíðunni www.stjornarskra.com.
Í tilkynningu sagði SUS að með þessu vildi sambandið „leggja sitt af mörkum til að umræða um stjórnarskrármál sé byggð á því sem rétt er og finna má stoð fyrir á vef Alþingis og í öðrum opinberum gögnum en ekki á einstaka skoðunum eða rangfærslum.“