„Þær breytingar á ferðamennsku og fyrirtækjarekstri sem fylgdu farsóttinni fela í sér sóknarfæri fyrir íslenskt mál og tækifæri til viðhorfsbreytingar,“ segir í nýrri ályktun frá Íslenskri málnefnd um stöðu íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd er skipuð af menntamálaráðherra og hefur meðal annars það hlutverk að álykta árlega um stöðu tungunnar.
Málnefndin segir að þegar rýnt sé í umræðu um stöðu íslensku blasi við „ákveðinn ímyndar- og viðhorfsvandi,“ sem lýsi sér í því að íslenskt mál virðist ekki jafn mikilvægur þáttur í sjálfsmynd Íslendinga og áður var. Tungumálið sé þannig gjarnan tengt við fortíð sem einkenndist af einangrun og fátækt og bókmenntaarfurinn virðist skipta minna máli í heimi fjölbreyttrar afþreyingar á ensku þar sem bóklestur er á undanhaldi.
Málnefnd segir að gera megi ráð fyrir að það hafi „talsverð áhrif á viðhorf til íslensku að um árabil hafa mikilvægar atvinnugreinar snúist um viðskipti og þjónustu við útlendinga sem veitt er á erlendum tungumálum en langmest ensku“ og að það hafi komið berlega í ljós fyrr á árinu þegar túrista hættu að streyma til landsins vegna faraldursins að ritmál í ferðaþjónustu hafi verið nær eingöngu á ensku eða öðrum erlendum málum.
„Það kom sér illa þegar markaðssókn tók nýja stefnu og hætt var að beina markaðsefni að erlendum gestum vegna ferðatakmarkana af völdum farsóttar og því beint að þeim sem búa á Íslandi,“ segir í ályktun málnefndarinnar.
En sem áður sagði er nú sóknarfæri fyrir tungumálið, að mati málnefndar. „Það þyrfti að nýta þegar vöxtur færist í ferðaþjónustu á ný og hvetja fyrirtæki til að bjóða vörur sínar og þjónustu ávallt fram á íslensku til jafns við önnur tungumál. Enginn ætti að geta ferðast um Ísland án þess að komast að því að hér á landi er talað sérstakt tungumál en ekki aðeins enska. Leggja má áherslu á að málið snúist um sjálfsvirðingu. Engu hóteli dettur í hug að láta gest koma að óuppbúnu rúmi og jafn sjálfsagt á að vera að íslenska sé ávallt sýnileg, ásamt ensku ef þurfa þykir, segir málnefnd.
Dómhörð umræða um málnotkun engum til framdráttar
Auk þess að vekja athygli á þessu sóknarfæri fyrir tunguna sem myndast hafi fyrir vegna faraldursins ræðir Íslensk málnefnd um stöðu íslenskunnar í menntakerfinu, í afþreyingu og almannarýminu. Einnig segir málnefndin að svo virðist sem almenningsálitið í garð tungunnar „sé yfirleitt á þá lund að íslensku máli hnigni hratt.“
„Neikvæð umræða á þeim nótum beinist yfirleitt að yngstu kynslóðinni og útlendingum sem eru að læra íslensku. Gerðar eru athugasemdir við að unga fólkið sletti of mikið, beygi vitlaust og hafi takmarkaðan orðaforða og að útlendingar hvorki skilji né tali íslensku. Umræða á þessum nótum er ekki til þess fallin að styrkja stöðu íslensku,“ ritar málnefndin um þetta atriði og segir þörf á vitundarvakningu meðal almennings um að íslenska sé síbreytileg og til í mörgum myndum.
„Gefa þarf börnum og ungmennum, ungu fólki og útlendingum tækifæri til að tjá sig á íslensku við öll tækifæri. Hvetja á fólk til að láta rödd sína heyrast án þess að strax gjósi upp dómhörð umræða um málnotkun,“ segir Íslensk málnefnd, sem telur alla þurfa að leggjast á eitt við að efla jákvætt viðhorf í garð íslensks máls.