„Raunverulegar ástæður þess að Samtök atvinnulífsins sækjast nú eftir að snúa sig út úr gildandi kjarasamningi koma eiginlegum, umsömdum forsendum samningsins ekkert við,“ ritar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í grein á vef Fréttablaðsins.
Þar lýsir hún þeirri skoðun sinni að fari svo að aðildarfyrirtæki SA kjósi að segja upp lífskjarasamningum, sem um samdist á vormánuðum 2019, sé rétt að skoða að vísa slíkri uppsögn til Félagsdóms, þar sem skorið verði úr um lögmæti hennar.
Hún segir SA stíga fram til uppsagnar á gerðum kjarasamningum „með klækjabrögð, óheilindi og tækifærismennsku að vopni“ og sé að nota tækniatriði til þess að segja forsendur kjarasamninga brostnar, en í yfirlýsingu á vef SA í gær sagði að ljóst væri að tiltekin tímasett vilyrði í yfirlýsingu stjórnvalda frá 3. apríl 2019 hefðu ekki gengið eftir og að það veitti báðum samningsaðilum heimild til að lýsa því yfir að forsendur kjarasamninga hafi brostið.
Loforðapakki stjórnvalda, þar sem aðallega stendur út af loforð um takmörkun á 40 ára verðtryggðum lánum, er ein af þremur forsendum sem bæði SA og ASÍ mega nota til að segja upp lífskjarasamningunum.
Hinar tvær snúa að um vaxtalækkunum og kaupmáttaraukningu og ljóst er að vextir hafa lækkað og kaupmáttaraukning átt sér stað síðan samningarnir voru undirritaðir, þrátt fyrir að blikur séu á lofti um þróun kaupmáttar almennings vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Sólveig Anna segir í grein sinni að bann við 40 ára verðtryggðum lánum sé „atriði sem stjórnvöld lofuðu að beiðni verkalýðshreyfingarinnar, ekki atvinnurekenda“ og því sé meintur forsendubrestur varðandi það verkalýðshreyfingarinnar að skera úr um, en ekki atvinnurekenda. „Enn fremur liggur fyrir að frumvarp er í smíðum sem fullnægja mun umræddu loforði líkt og forseti ASÍ lýsti í fréttum í gærkvöldi,“ bætir hún við í grein sinni.
Hefur rætt málið við aðra forystumenn innan ASÍ
„Það er merkilegt að verða vitni að þessu, þessum blekkingum,“ segir Sólveig Anna í samtali við Kjarnann.
Spurð hvort hún hafi viðrað þá skoðun sína að rétt sé að fara með uppsögn samninganna til Félagsdóms við aðra forystumenn innan ASÍ segir hún að það hafi hún gert og verið sé að skoða málið, en í ljós á eftir að koma hvort fyrirtækin innan SA vilja segja samningunum upp.
Hún segir að uppsögn kjarasamninganna myndi koma verst niður á þeim minnihluta starfsmanna á almennum vinnumarkaði sem séu á strípuðum töxtum.
„Það er fólkið sem þarf mest á því að halda að fá þessar hófstilltu hækkanir sem samið var um. Þetta er fólkið sem fer með allar sínar krónur beint út í nærumhverfið og eyðir þeim öllum til að örva hér hagvöxtinn,“ segir Sólveig Anna.