Frá 15. september, á tæplega hálfs mánaðar tímabili, hafa 464 greinst með COVID-19 hér á landi. Í gær greindust 39 með veiruna innanlands.
Nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa er nú komið í 128,2. Það var 13,6 fyrir um tveimur vikum eða um það leyti sem þriðja bylgja faraldursins hér á landi hófst.
Fjórir sjúklingar eru inniliggjandi á Landspítalanum og í gær var einn þeirra kominn á gjörgæsludeild og í öndunarvél.
Í gær voru 1.385 sýni tekin á landinu og þar af 629 við landamærin. Þetta er nokkuð minni fjöldi en síðustu daga enda eru yfirleitt tekin færri sýni á sunnudögum en aðra daga vikunnar. Mikill meirihluti þeirra sem greindist í gær var þegar í sóttkví eða 87 prósent.
Í heild eru 492 í einangrun vegna COVID-19 og tæplega 1.900 manns í sóttkví. Frá upphafi faraldursins í lok febrúar hafa 2.663 fengið COVID-19 á Íslandi. Tíu eru látin.
Hræðileg staða að vera með hópsýkingu úti á sjó
Inni í tölum gærdagsins er hópsýking sem kom upp um borð í línuskipinu Valdimar GK. Staðfest var í gær að allir fjórtán skipverjarnir væru með COVID-19. Í frétt RÚV kemur fram að veikindi hefðu komið upp um borð á fimmtudagskvöldið er skipið var að veiðum vestur af Hornafirði. Þegar fleiri tóku að veikjast var ákveðið að snúa til hafnar.
Björn Halldórsson, öryggisstjóri útgerðarfélagsins Þorbjarnar sem gerir Valdimar GK út, sagði í samtali við RÚV í gærkvöldi að það væri hræðileg staða að vera með hópsýkingu úti á sjó. Þegar ákveðið var að taka stefnuna í land var sólarhringssigling í „skítabrælu“ fyrir höndum. Allt hafi þó gengið vel.
150 starfsmenn Landspítala í skimun
Landspítalinn er á hættustigi vegna faraldursins. Viðbragðsáætlun vegna farsótta hefur verið virkjuð á ný. Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd funda daglega.
Í dag stendur til að skima fyrir COVID-19 hjá um 150 starfsmönnum Landspítalans í Fossvogi. Vegna fjölgunar innlagna á sjúkrahúsið og vaxandi þunga í eftirliti á COVID-göngudeildinni hefur viðbúnaður á smitsjúkdómadeildinni, sem er í Fossvogi, verið aukinn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann væri tilbúinn með tillögur að hertum aðgerðum ef á þyrfti að halda vegna áframhaldandi útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Hann benti á að árangur af aðgerðum sem gripið var til síðast, t.d. tímabundin lokun vínveitingastaða, taki sinn tíma að koma í ljós.