Miðflokksmenn í Múlaþingi, nýja sameinaða sveitarfélaginu á Austurlandi, telja að Klausturmálið hafi spillt fyrir sér í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Flokkurinn fékk 11 prósent atkvæða, minnst fylgi þeirra fimm framboða sem buðu fram og náði einum fulltrúa inn í nýkjörna ellefu manna sveitarstjórn.
Sigurður Ragnarsson framkvæmdastjóri á Héraði, sem sat í 7. sæti á framboðslista flokksins, segir í aðsendri grein á vef Austurfréttar að hann sé bæði bitur og miður sín yfir úrslitum kosninganna. Hann segir að það sé ekki vegna þess að fólk hafi haft aðrar skoðanir en miðflokksmenn, enda sé það bara lýðræðislegt að fólk hafi misjafna sýn á málin.
„En mér finnst afar ósanngjarnt að ég og aðrir sem unnum af heilindum í aðdraganda þessarra kosninga skyldum endalaust þurfa að svara fyrir fyllerísröfl Gunnars Braga Sveinssonar á bar suður í Reykjavík, og allar þær hugmyndir og hugsjónir sem við hefðum væru einskis virði þess vegna,“ skrifar Sigurður.
Hann bætir við að Gunnar Bragi og aðrir Klausturþingmenn hafi „sannarlega fengið að iðrast þessarra gjörða sinna“, en segist efast um að þeir sem létu „fúkyrði og svívirðingar“ dynja á þingmönnunum á samfélagsmiðlum hafi gert hið sama.
„Sá ykkar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum“
Grein Sigurðar birtist á föstudag. Í gær steig Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins í sveitarfélaginu, fram í athugasemd undir greininni og tók undir það að „þetta bar-mál“ hefði þvælst fyrir miðflokksmönnum í kosningabaráttunni. Hann sagði marga hafa komið að máli við sig og spurt hvort hann tæki undir skrif Sigurðar.
Þröstur segist ekki hafa tölu á því hversu oft hann fékk til sín setningar þess efnis að fólk myndi kjósa framboðslista Miðflokksins ef hann væri ekki tengdur „þessum xxxxx“ og bætir við að með „xxxxx“ vísi hann til „orðaleppa sem eru vart á prent setjandi“.
Oddvitinn segist biðja Guð um náð og fyrirgefningu fyrir sjálfan sig og því hljóti hann að fyrirgefa öðrum, vitandi það að allir geri mistök.
„Því miður virðist margt fólk ekki hugsa eins, heldur dæmir fólk nánast til dauða að eilífu, á sama tíma og það ætlast sjálft til að fá fyrirgefningu synda sinna, eða einfaldlega telur sig syndlaust. Dómharka fylgir vaxandi guðleysi í þjóðfélagi okkar og er að verða stórvandamál útaf fyrir sig,“ skrifar Þröstur í athugasemd sinni.
Þar endar hann svo á að vísa í 8. kafla Jóhannesarguðspjalls: „Sá ykkar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.“
Gunnar Bragi Sveinsson vísaði einmitt til sömu orða úr ritningunni í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér 30. nóvember 2018, er hann tilkynnti að hann myndi taka sér leyfi frá þingstörfum vegna Klausturmálsins.