Kvika banki og TM hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um sameiningu bankans við Lykil og að tryggingarfyrirtækið verði dótturfélag bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu Lykils, sem birtist á Kauphöllinni í kvöld.
Samkvæmt tilkynningunni samþykktu bæði fyrirtækin að hefja samrunaviðræðurnar í dag, en gert er ráð fyrir TM verði dótturfélag Kviku banka og að Lykill sameinist Kviku banka. Þá er gert ráð fyrir að hluthafar í TM fái sem endurgjald fyrir hlutabréfin sín í TM 55 prósenta hlut í sameinuðu félagi.
Búist er við því að viðræðurnar muni fara fram á næstu vikum, en auk þess verði áreiðanleikakannanir framkvæmdar fyrir bæði fyrirtækin. Þar sem bæði TM og Kvika banki eru skráð í Kauphöllinni og búi því við upplýsingaskyldu segir í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir að sú vinna taki ekki langan tíma.
Fréttablaðið greindi fyrst frá fyrirhugaðri sameiningu í byrjun júlí síðastliðnum, en þar sagði að æðstu stjórnir félaganna beggja hafi staðið í samræðum í nokkrar vikur, þótt enn hefði ekki náðst samkomulag að hefja formlegar viðræður.
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins voru viðræðurnar „tímabundið á ís eins og sakir standa,“ meðal annars vegna þess að ólíkar hugmyndir væru uppi um á hvaða verði félögin tvö yrðu metin ef af sameiningu yrði.
Kvika banki hafnaði fréttinni á sínum tíma og gaf frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem sagt að viðræður um samruna við TM væru hvorki hafnar né fyrirhugaðar.
Samkvæmt tilkynningu Lykils hf. er nú talið að sameiginlegur kostnaður nýja félagsins muni verða einum milljarði króna minni en núverandi kostnaður félaganna tveggja vegna samlegðaráhrifa. Gert er ráð fyrir að hægt sé að ná slíkri hagkvæmi vegna þess að fjármögnun verður hagkvæmari.