Ríkisstjórn Íslands hefur kynnt átta aðgerðir, sem hún telur að muni kosta skattgreiðendur 25 milljarða króna, til að höggva á þann hnút sem er á vinnumarkaði eftir að Samtök atvinnulífsins boðuðu atkvæðagreiðslu um uppsögn Lífskjarasamningsins.
Atkvæðagreiðsla aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins um hvort segja eigi upp kjarasamningum á að hefjast klukkan 12 í dag og því var aðgerðarpakkinn kynntur innan við klukkutíma áður.
Katrín Jakobsdóttir sagði í samtali við Vísi að með þessum aðgerðum væri verið að létta atvinnulífinu róðurinn, sem væri vissulega þungur.
„Nú skaltu spyrja SA að því,“ sagði forsætisráðherra við fréttamann eftir að hafa verið spurð hvort hún teldi að þetta útspil stjórnvalda yrði til þess að kjarasamningar myndu halda, en hún sagði yfirlýsingu stjórnvalda um þessar aðgerðir miðaðar að því að kjarasamningar héldu.
Hún sagðist bjartsýn á að þetta leiddi til þess að ekki yrði ófriðarbál á vinnumarkaði og sagði mjög mikilvægt, í ljósi þess að nú geisar heimsfaraldur sem ekki sér fyrir endann á, að ekki væru í ofanálag átök á vinnumarkaði.
Tryggingagjald lækkað tímabundið
Helstu aðgerðir eru þær að tryggingagjald verður lækkað tímabundið í eitt ár, til loka árs 2021, um 0,25 prósent og er kostnaður ríkissjóðs við þetta metin á fjóra milljarða króna. Full endurgreiðsla á virðisaukaskatti undir hatti úrræðisins „Allir vinna“ verður framlengt út árið 2021 og er kostnaður við þá aðgerð metin á átta milljarða króna.
Þá var greint frá því að unnið sé að „útfærslu á skattalegum aðgerðum sem hafa það að markmiði að hvetja og styðja fyrirtæki til fjárfestinga sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins.“ Jafnframt verða skoðaðar leiðir til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum.
Framlög til nýsköpunarmála aukin um fimm milljarða
Framlög til nýsköpunarmála verða aukin um fimm milljarða króna á næsta ári og hafa þá verið aukin um tíu milljarða króna á ársgrundvelli ef þau eru borið saman við árið 2019.
Ríkisstjórnin mun líka hrinda í framkvæmd úrbótum í skipulags- og byggingamálum og vinna að umbótum á lífeyriskerfinu og vinnumarkaði. Afrakstur þeirrar vinnu á að kynna í grænbók um lífeyrismál sem kynnt verður vorið 2021. Í tilkynningu stjórnvalda segir að jafnframt muni „ríkisstjórnin hafa forystu um gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði. Stefnt er að því að grænbókin um vinnumarkað verði sömuleiðis kynnt vorið 2021.“
Að lokum lofa stjórnvöld að leggja fram frumvarp starfskjaralaga, frumvarp til húsaleigulaga, frumvarp til laga um breytingar á gjaldþrotaskiptum (kennitöluflakk) og frumvarp um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, sem á að mæta loforði stjórnvalda um að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, á haustþingi.